Skip to main content

admin

Sýningin Flugdrekabók opnuð 17. júní

Þann 17. júní var opnuð sýning eftir Guy Stewart. Hún samanstendur af sjö flugdrekabókum sem hver og ein er tileinkuð fornu bókmenntaverki.

Sjáum-k eg meir um Munin er yfirskrift sýningar eftir Guy Stewart sem samanstendur af sjö flugdrekabókum sem hver og ein er tileinkuð fornu bókmenntaverki. Sýningin var opnuð í Safnahúsinu á Egilsstöðum kl. 14 þann 17. júní.

Sýningin er nokkurs konar óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins. Listamaðurinn beinir sjónum sínum að þeim áhrifum sem nýir miðlar eins og internetið hafa á hugsanagang okkar og hvernig við umgöngumst bækur í dag. Niðurstaðan er að bækur séu eins og flugdrekar. Á meðan internetið er alltumlykjandi er bókin hlutur sem við tökum okkur í hendur á ákveðnum tímum við ákveðnar aðstæður, rétt eins og flugdrekar sem aðeins er hægt að fljúga í vindi.

Guy Stewart hefur unnið sem leikari, grunnskólakennari og hönnuður. Hann er fæddur og uppalinn í Kanada en hann hefur búið á Íslandi frá árinu 1994.

Sýningin er sett upp í Safnahúsinu á Egilsstöðum í samvinnu við Bókasafn Héraðsbúa og Minjasafn Austurlands og er styrkt af Fljótsdalshéraði.

Flugdrekabókin hefur verið sett upp á bókasöfnum bæði hér á landi og erlendis. Meðal annars á Amtsbókasafninu á Akureyri, Borgarbókasafni og Íslenska bókasafninu í Háskólanum í Manitoba.

flugdrekabok web small