Skip to main content

admin

Safnað og sýnt - Geymdar Guðsorðabækur

Í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní opnar Héraðsskjalasafn Austfirðingu sína þriðju örsýningu.

Í þetta sinn eru það bækur, ekki síst Biblíur, sem eru í forgrunni og við sýnum hluta af þeim bókum sem við geymum í safninu. Héraðsskjalasafn Austfirðinga geymir gömul skjöl frá Austurlandi en hýsir jafnframt bókasafn sem hugsað er til stuðnings þeim sem vilja rannsaka safnkostinn eða stunda rannsóknir, fræðastörf og nám af ýmsu tagi, auk þess að leitast við að varðveita sýnishorn af útgáfu Austfirskra höfunda.

Þrátt fyrir að það sé ekki eitt af meginhlutverkum skjalasafnsins hefur ætíð verið nokkuð um að til okkar leiti fólk með gamlar bækur sem það óskar eftir að safnið taki til varðveislu og hefur héraðsskjalavörðum á öllum tímum þótt erfitt að verða ekki við því. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Í fyrsta lagi er það nánast óhjákvæmilegur fylgifiskur starfsins að elska pappír og bækur. Tilfinningin að sjá slíku fargað, sérstaklega ef það er nokkuð við aldur, er flestum þeim sem starfa við skjalavörslu erfið, jafnvel illbærileg.

Í öðru lagi þá er ekki á Austurlandi önnur varðveislustofnun sem safnar gömlum bókum. Síðan að Amtsbókasafnið á Seyðisfirði leið undir lok, en hluti safnkostsins þaðan er nú varðveittur hér í skjalasafninu, er ekkert bókasafn á Austurlandi með slíka varðveisluskyldu. Því hefur okkur þótt ástæða til að skjalasafnið leitist við að halda utan um gamalt prentefni svo það sé varðveitt einhversstaðar í fjórðungnum.

Í þriðja lagi tengjast gamlar bækur oft sögu einstaklinga eða stofnana á svæðinu. Það er oft stutt á milli þess að varðveita skjöl slíkra aðila eða bækur sem þau hin sömu hafa merkt sér með eigin hendi og er jafnvel hægt að rekja eigendasögu einstakra bóka langt aftur í tímann gegnum slíkar merkingar.

Með þessari litlu sýningu viljum við sýna hluta þeirra bóka sem varðveittar eru hér í skjalasafninu. Að þessu sinni eru það einkum Guðsorðabækur sem urðu fyrir valinu, en oft og tíðum einskorðaðist bókaeign almennings á Íslandi við slíkar bækur þó annað efni hafi vissulega einnig verið í eigu fólks og megi finna hér. Þá eru hér varðveittar Biblíur úr kirkjum á svæðinu, sumar býsna fágætar.

Íslenskar Biblíur í 300 ár

Sýningin er í raun tvískipt. Annars vegur eru það Biblíur, en Héraðsskjalasafn Austfirðinga varðveitir eintök úr sex af átta fyrstu prentunum Biblíunnar á íslensku. Helsti dýrgripurinn er Guðbrandsbiblía frá 1584 sem er í eigu Hofteigskirkju. Hún var lengi varðveitt á Seyðisfirði en var afhent skjalasafninu til varðveislu seint á 20. öld. Um svipað leyti var framkvæmd viðgerð á bókinni. Safnið hefur ekki eintak af næstu gerð, Þorláksbiblíu frá 1644, en aðrar útgáfur til og með þeirri áttundu, Lundúnabiblíunni frá 1866, er hér að finna, fyrir utan svonefnda Reykjavíkurbiblíu frá 1859, og nokkur eintök af sumum.

Eintök í sýningarborði:

i. Guðbrandsbiblía 1584 (viðgert eintak) prentuð á Hólum – Eign Hofteigskirku á Jökuldal
ii. Steinsbiblía 1728 prentuð á Hólum
iii. Vajsenhusbiblía 1747 prentuð í Kaupmannahöfn (tvö eintök) – Önnur eign Áskirkju í Fellum
iv. Grútarbiblía 1813 prentuð í Kaupmannahöfn
v. Viðeyjarbiblía 1841 prentuð í Viðey (tvö eintök)
vi. Lundúnabiblía 1866 prentuð í Lundúnum

Eins og sjá má er gömul hefð er fyrir því að elstu útgáfur Biblíunnar á íslensku bera ákveðin heiti, sem vísar gjarnan til uppruna þeirra með einhverjum hætti. Þar sker þó ein sig úr, Grútarbiblían frá 1813. Það kemur til af því að nokkrar meinlegar villur urðu í prentuninni og var meðal annars sú bók Gamla testamentisins sem í dag nefnist Harmljóðin, en þá Harmagrátur Jeremía, látin heita Harmagrútur Jeremía. Þetta þótti mörgum eðlilega skondið og nafnið festist við útgáfuna, þó einhverjir hafi viljað nefna hana Hendersonbiblíu, eftir helsta hvatamanni útgáfunnar.

 Gamlar prentbækur

Á 18. og 19. öld var gefið út töluvert magn af ýmiskonar trúarlegum bókmenntum á íslensku og var lögð áhersla á að fólk ætti slíkar bækur eða lesið væri úr þeim á heimilum fólki til uppfræðslu og sálarheillar. Eftir því sem leið á fóru þó annarskonar bækur einnig að dúkka upp í bókakistum landsmanna.

Eintök í glerskáp:

Í glerskápnum er að finna sýnishorn af bókum og bæklingum frá þessum tíma og úr ýmsum áttum, svo sem hugvekjur, almanök, ljóð og ýmislegt fleira sem fólk las sér til gagns og skemmtunar.
Ef óskað er eftir frekari upplýsingum um einstakar bækur má snúa sér til skjalavarða héraðsskjalasafnsins.