Skip to main content

admin

Sýning um Jón frá Möðrudal í Sláturhúsinu

Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Minjasafn Austurlands og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs opna sýningu um Jón A. Stefánsson frá Möðrudal á fjöllum. Sýningin opnar föstudaginn 17. júní klukkan 16:00.

 Sýningin í ár er með öðru sniði en undanfarin ár en Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Minjasafn Austurlands, og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs taka höndum saman og setja upp sýningu um Jón frá Möðrudal á fjöllum.

Á sýningunni eru til sýnis málverk, úrskornir gripir og aðrir munir tengdir Jóni úr safnkosti safnanna tveggja. Leitast hefur verðið við að draga upp heilstæða mynd af þessum litríka og merka alþýðulistamanni sem sinnti sköpunarþörfinni meðfram því að heyja harða lífsbaráttu á einu afskekktasta býli landsins.

Auk þess að vera bóndi í Möðrudal var Jón A. Stefánsson (1880-1971) mikill hagleiks- og listamaður, málaði málverk, skar út í tré, spilaði á orgel, samdi lög og söng. Frægastur er hann þó fyrir að hafa byggt Möðrudalskirkju og málað altaristöfluna sem í henni er en kirkjuna byggði hann til minningar um konu sína, Þórunni Oddsen.

Á Minjasafni Austurlands og Héraðsskjalasafni Austfirðinga er geymdur fjöldi muna sem tengjast Jóni. Má þar nefna málverk eftir hann og af honum, margvíslegan útskurð eftir hann, ljósmyndir skjöl og margt fleira. Þá geymir Tónlistarsafn Íslands tæplega 30 hljóðupptökur með söng Jóns, þeirra frægust er upptaka með söng hans á laginu „Sjö sinnum það sagt er mér“ sem Einar Sverrir Tryggvason endurhljóðblandaði árið 2010.

Markmið sýningarinnar er að draga upp mynd af þessum merka austfirska alþýðulistamanni með því að tvinna saman upplýsingar, ljósmyndir, skjöl, listmuni og upptökur. Vonir standa einnig til þess að með sýningunni skapist vettvangur til að afla upplýsinga um verk Jóns sem til eru meðal almennings og í framhaldinu að útbúa heilstæða skrá yfir þau. Einnig má sjá fyrir sér að austfirskir listgreinakennarar geti nýtt sýninguna í sinni kennslu svo hún mun nýtast til að efla listgreina- og sögukennslu.