Skip to main content

admin

Aðsókn á fyrri hluta ársins

Nú þegar árið er hálfnað er rétt að líta yfir það hver aðsóknin hefur verið að safninu fyrstu sex mánuði ársins og bera saman við sama tíma í fyrra. Þeim sið við talningu gesta og erinda/fyrirspurna sem tekin var upp við ársbyrjun 2008 hefur verið haldið þetta ár. Hann felur í stuttu máli í sér daglega skráningu á fjölda gesta og erinda/fyrirspurna. Skjala- og myndbeiðnir eru skráðar með sama hætti. Ekki er gerður greinarmunur á erindum eftir umfangi þeirra eða gestum eftir því hvort þeir stoppa við skemur eða lengur.  

Alls hafa 863 gestir komið í héraðsskjalasafnið fyrstu sex mánuði ársins. Er það lítilleg aukning frá árinu í fyrra en þá höfðu á saman tíma 834 gestir komið í safnið. Af einstökum mánuðum komu langflestir gestir í safnið í febrúarmánuði , alls 272. Skýrist þetta einkum af tíðum heimsóknum skólahópa þennan mánuð. Febrúarmánuður í fyrra var einnig aðsóknarmesti mánuður fyrrihelmings þess árs þó að gestir þá væru nokkru færri eða 207. Aðsókn aðra mánuði en febrúar á þessu ári er á bilinu 101 til 132 gestir á mánuði. Fæstir voru gestirnir í maí en flestir í apríl og júní. Er þetta áþekkt því sem var fyrir ári síðan. Helsti munurinn er sá að í jánuar á þessu ári komu heldur færri gestir (123) en í janúar í fyrra (151). 

Erindi og fyrirspurnir það sem af er ári eru heldur færri en á sama tíma árið 2008. Eru 229 fyrstu sex mánuði þessa árs en voru 260 á sama tíma í fyrra. Dreifing erinda og fyrirspurna á mánuði helst nokkurn veginn í hendur við gestafjölda þó þetta tvennt tengist ekki með beinum hætti þar sem undir erindi og fyrirspurnir er skráð það sem kemur í gegnum síma og tölvupóst.

Það sem helst vekur athygli við þessa tölfræði fyrir fyrri helmings yfirstandandi árs er hversu mikið færri skjala- og myndbeiðnir eru nú miðað við árið í fyrra. Eru þær 78 það sem af er ári en voru 210 eftir sama tímabil í fyrra. Á þessu er engin einhlýt skýring. Þó spilar hér líklega stærsta rullu að á vormisseri 2008 var aðsókn menntskælinga í safnið allgóð og mun meiri en var á nýafstöðnu vormisseri. Vorið 2008 var nemendum í Sögu Austurlands í ME gert að byggja eitt verkefni á heimildum úr héraðsskjalasafninu. Yfir 20 nemendur voru í þessu námskeiði og komu þeir allir í safnið, margir alloft.

Rétt er að taka fram að utan við þær aðsóknartölur sem hér hafa verið reifaðar er aðsókn að einstökum viðburðum sem fram fara í safnahúsinu og héraðsskjalasafnið tekur þátt í. Þar má nefna hátíðahöld á sumardaginn fyrsta og þjóðhátíðardaginn en vel á þriðja hundrað manns komu í safnahúsið þessa tvo daga.