Kristján Jónsson Vopni
Eitt af merkari einkaskjalasöfnum sem varðveitt eru í Héraðsskalasafni Austfirðinga er einkaskjalasafn Kristjáns Jónssonar, sem oft er kenndur er við Hrjót í Hjaltastaðaþinghá. Hann var líka stundum nefndur Kristján Vopni sem dregið var af því að hann var fæddur og uppalinn í Vopnafirði. Verður nánar vikið að safni hans hér á eftir, en fyrst nokkur orð um hann sjálfan. Styðst ég þar m.a. við kirkjubækur og manntöl og að nokkru við æviminningar hans sjálfs, sem hér eru til í handriti.
Kristján Jónsson var fæddur að Hraunfelli í Vopnafirði 28. apríl 1861. Hraunfell er innsta býli í Hraunfellsdal norðvestan Sunnudalsár, en bærinn fór í eyði 1949. Foreldar Kristjáns voru Jón Árnason frá Hrappsstöðum í Vopnafirði, þá bóndi í Hraunfelli og Kristín Jónsdóttir kona hans frá Egilsstöðum í sömu sveit. Þau eignuðust alls 12 börn, en aðeins 4 þeirra náðu fullorðins aldri. Kristján naut ekki lengi samvista við foreldra sína, því árið eftir fæðingu hans eru foreldrar hans farnir frá Hraunfelli og flutt að Borgum í sömu sveit með eitt barn, Stefaníu Salínu systur hans 5 ára. Kristján segir sjálfur í endurminningum sínum: „Ég var víst strax tekinn í fóstur af Páli bónda í Syðrivík og Arnfríði móðursystur minni ...“ Þetta mun þó ekki vera alls kostar rétt því í Húsvitjunarbók Hofsprestakalls 1862 er Kristján skráður á Skjaldþingsstöðum, ómagi 2 ára og er hann þar einnig næsta ár. Það er því ekki fyrr en árið 1864 að Kristján fer í fóstur til Arnfríðar Jónsdóttur, móðursystur sinnar, og Páls Pálssonar manns hennar í Syðrivík í Vopnafirði. Kristján missti fóstra sinn sjö ára gamall og mun síðan hafa verið tökubarn á ýmsum bæjum í Vopnfirði næstu árin. Að sögn Kristjáns fór hann alfarinn úr Vopnafirði austur á Hérað vorið 1877, en hann er þá 16 ára. Hann var þá ráðinn sem vinnumaður að Bessastaðagerði í Fljótsdal. Kristján var síðan vinnumaður á ýmsum bæjum á Héraði næstu ár. Hann hefur verðið námfús og segir m. a. frá því minningum sínum að vorið 1878 réð hann sig sem vinnupilt til Páls Vigfússonar stúdents er þá bjó í Hrafnsgerði og var hjá honum í tvö ár. Réð Kristján sig með þeim skilmálum að hann fengi kennslu hjá Páli þær fáu stundir sem hann hafði frá verkunum. „Annað kaup hafði ég ekki“ segir Kristján í æviminningum sínum. Kristján stundaði nám í Búnaðarskólanum á Eiðum 1889-1890 og lauk þar burtfararprófi. Hann kvæntist 23. júní 1889 Sesselju Oddsdóttur frá Hreiðarsstöðun í Fellum. Þau höfðu áður eignast dóttur, Kristbjörgu, 1884 og var það eina barn þeirra.
Kristján er skráður bóndi á Tókastöðum í Eiðaþinghá 1898-1901 en hann var víðar á Héraði. Um 1920 er hann kominn að Eiðum og vinnur þar við búið. Benedikt Gísalason frá Hofteigi segir í Eiðasögu sinni um Kristján: „Hann var þá [1921] heimilismaður á Eiðum og hafði stundað þar fjármennsku og flest búandstörf á heimilinu. [...] Kristján var gáfumaður mikill og sér um skoðanir, fræðimaður á sögu og forna háttu, leikinn og lesinn í Íslendingasögum og forntungunni, áhugamaður um framfarir og vildi þó hafa á öllu gát, snyrtimenni ytra og innra, og mátti glöggt á honum heyra og í fasi finna, hvað honum þótti nokkurs nýtt og hvað hégóminn einber.“ Síðar segir Benedikt „hann kom í Eiða í elli sinni, og þótti þar mikil staðarbót. Var nemendum hann minnisstæður, en skólastjóra og heimamönnum hugþekkur.“ Kristján var allmörg ár á Hrjót í Hjaltastaðaþinghá hjá Kristbjörgu dóttur sinni og manni hennar en hún bjó þar til 1923. Kristján lést 11. nóvember 1943 þá til heimilis á Stóra-Steinsvaði í sömu sveit.
Einkaskjalasafn Kristjáns: Hér er sem fyrr getur varðveitt einkaskjalasafn Kristjáns Jónssonar. Það er allfjölbreytt að efni, alls 43 færslur, en undir hverri færslu geta verið margir liðir eða atriði. Of langt mál yrði að birta hér alla skrána, en hún er um 6 blaðsíður. Því verður að stikla á stóru og geta um helstu atriðin.
Bernsku- og æskuminningar: Kristján hefur m. a. skrifað bernsku- og æskuminningar sínar og er handritið um 100 bls. en blaðsíður misstórar. Þar rekur hann fyrst minningar sínar frá Vopnafirði fram til þess er hann flytur austur á Hérað 16 ára.Hann segir frá mönnum er hann kynntist eða heyrði af á Vopnafirði, íþróttaiðkunum þar og ýmsum atburðum. Athyglisverð er frásögn hans af arnarhreiðri í svonefndum Arnarstapa við ströndina á milli Leiðarhafnar og þorpsins á Vopnafirði. Kveðst hann hafa kastað steini í hreiðrið og brotið eggin. Einnig lýsir hann för sinni frá Vopnafirði og austur í Fljóstdal 1877. Hann segir frá búskaparháttum í Fljótsdal á þeim tíma er hann kemur þangað og ber þá saman við búskaparhætti í Vopnafirði. Telur hann að velmegun hafi verið jafnari í Fljótsdal enn í Vopnafirði, búfé yfirleitt fleira á hverjum bæ þar en í Vopnafirði og framfarir meiri í Fljótsdal en hann átti að venjast úr Vopnafirði. Hann segir frá ýmsum bændum í Fljótsdal t.d. Sigfúsi Stefánssyni á Skriðuklaustri og Ólafi Stefánssyni í Hamborg, Jóni Einarssyni á Víðivöllum ytri, Andrési Kjerúlf, Þorsteini hreppstjóra í Brekkugerði og Einari Guttormssyni og Sölva Vigfússyni á Arnheiðarstöðum og fleirum. Hann minnist á glímuiðkanir í Fljótsdal sem „voru háðar í sambandi við Skrúfufundirna...“ er þar átt við félagsfundi hins svonefnda Skrúfufélags. Segir Kristján að formaður þess félags hafi verið Guðmundur Hallsson bóndi í Bessastaðagerði og síðar í Mýnesi (sjá grein um Skrúfufélagið í Glettingi 2. tbl. 2003). Hann segir einnig frá prestunum séra Lárusi Halldórssyni á Valþjófsstað, síðar fríkirkjupresti á Reyðarfirði, og séra Sigurði Gunnarssyni í Ási og síðar á Valþjófsstað. Merkileg er einnig frásögn af því er fjórir bændur í Fellum keyptu bát af Halldóri Magnússyni á Sandbrekku. Kristján var einn af fjórum ungum mönnum er fluttu bátinn niður Bjarglandsá og Selfljót og út á Héraðsflóa og svo upp Lagarfljót, fram hjá Lagarfossi og upp að Skeggjastöðum í Fellum. Lýsir hann því ferðalagi og áfangastöðum á leiðinni.
Ýmsir þættir: Kristján hefur skrifað sérstaka þætti um eftirtalda menn: Stefán Erlendsson skáld er uppi var á 18. öld og fyrri hluta 19. aldar, séra Stefán Pétursson, séra Þorvald Ásgeirsson í Hofteigi, Jóhannes Jónsson sem kallaður var „blessaður unginn“, Stefán Ásbjörnsson á Bóndastöðum, Halldór Jónsson (kúða), Andrés Kjerúlf og séra Pál Pálsson í Þingmúla. Einnig má nefna þátt um hætti manna í Vopnafirði og víðar varðandi mat, matarsiði og hreinlæti. Kristján skrifaði fyrirlestur um Lambanesþing, sem hann flutti á Eiðum 1921, en hann var fyrstur manna til að koma auga á þennan forna þingstað í landi Hrjótar og birtist fyrirlestur hans í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1924. Fleiri erindi mun Kristján hafa flutt á mannamótum t.d. þátt um Þingstaði á Fljótsdalshéraði á Þjóðveldistíma, þátt um landnám einkum á Jökuldal og þætti um trúmál.
Kveðskapur: Í safni Kristjáns er allmikið af skáldskap eftir hann, aðallega ljóð og stökur og eftirmæli eða erfiljóð og a.m.k. ein saga líklega eftir Kristján, en einnig kveðskapur eftir aðra t.d. Pál Ólafsson.
Bréfasafn: Loks er hér varðveitt bréfasafn Kristjáns rúmlega 100 bréf frá fjölmörgum sem hann hefur átt bréfaskipti við en of langt yrði upp að telja. Margt fleira mætti nefna úr safni Kristjáns, en hér læt ég staðar numið að sinni.
Guðgeir Ingvarsson