Jólakortasýning og aðalfundur fulltrúaráðs
Í tilefni jólahátíðarinnar höfum við sett jólakortasýninguna inn á vefinn og má finna hana undir flipanum "Myndir" hér efst á síðunni. Kortin eru frá ýmsum tímum en stærstur hluti þeirra er úr safni systkinanna á Höfða á Völlum en einnig eru mörg úr safni Kristínar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Stefánssonar. Jafnframt er kominn inn á síðuna fróðlegur pistill um jólakort sem Arndís Þorvaldsdóttir hefur tekið saman. Aðalfundur fulltrúaráðs Héraðsskjalasafns Austfirðinga var haldinn á Breiðdalsvík 9. desember sl. og er fundargerð þess fundar nú aðgengileg hér á vefnum.
Upphaflega stóð til að halda fundinn 27. nóvember en þá varð að fresta honum vegna veðurs. Veður var hins vegar með besta móti þann 9. des. og var því vandræðalaust að komast til fundarstaðar, sem var Gamla kaupfélagshúsið á Breiðdalsvík. Páll Baldursson, sveitarstjóri á Breiðdalsvík og fulltrúi í fulltrúaráði héraðsskjalasafnsins, tók á móti hópnum og sýndi fundarmönnum Gamla kaupfélagshúsið að fundi loknum. Aðalfundurinn sjálfur var með hefðbundnu sniði, líkt og sjá má í fundargerð, nema hvað sérstök kynning var á starfsemi bókasafns Halldórs og Önnu Guðnýjar.