Skip to main content

admin

Af jólakortum fyrr og nú

Nú er genginn sá tími í garð að við setjumst niður og skrifum á jólakort til vina og vandamanna. Þessi siður að senda jólakveðju á bréfspjaldi er í raun ekki svo gamall, hugmyndin að jólakortinu varð til á Bretlandseyjum fyrir um 160 árum og til Íslands barst hann upp úr aldamótunum 1900. Í þessum stutta pistli verður farið lauslega yfir hvernig jólakortin þróuðust hér á landi og er stuðst við athugun á jólakortum sem varðveitt eru í Héraðsskjalasafni Austfirðinga þar sem undirrituð er starfsmaður. Forðast ber að líta á það sem hér kemur fram sem vísindalega úttekt þar sem um algjöra leikmannsþanka er að ræða.

Elstu kortin í varðveislu safnsins eru frá 1. áratug 20. aldar. Þau eru öll erlend að uppruna og kveðjan á þeim ýmist á dönsku eða þýsku. Það er svolítið sérstakt að oft eru þessi elstu kort sem varðveitt eru í safninu með kveðju frá foreldrum til barns eða gefin á milli systkina sem vekur þá hugmynd að þau hafi á stundum verið ígildi jólagjafa. Þetta eru falleg kort sem bera í sér boðskap jólanna, oft með myndum af englum sem skreyttir eru með gyllingum. Efast ég ekki um að það að fá slíkan dýrgrip í hendur hefur glatt bæði börn og fullorðna meira en dýrar gjafir gera í dag, í því mikla neysluþjóðfélagi sem við hrærumst í.

Fljótlega fóru jólakortin að verða þjóðlegri, þó áfram væru þau prentuð erlendis, t.d. urðu kort með ljóðakveðjum algeng eins og sjá má nokkur dæmi um í jólakortasýningu hér á vefnum. Myndirnar sem skreyta þau eru í flestum tilvikum af erlendum toga en ljóðin gefa þeim íslenskt yfirbragð. Elstu kortin voru öll einföld en þegar kemur fram á annan áratuginn fara að koma tvöföld kort og einnig kort sem skreytt eru með svarthvítum ljósmyndum sem oftast eru vetrarmyndir teknar út í náttúrunni eða myndir af kirkjum. Ennfremur eru dæmi um að austfirskir kaupmenn hafi sent viðskiptavinum jóla- eða nýárskveðju, annað hvort áritaða mynd af sjálfum sér eða mynd af versluninni.

Á árunum eftir 1940 verður sýnileg breyting á jólakortunum. Hún felst m.a. í því að þau eru ekki eins litskrúðug. Trúlega er ástæðan sú að ekki hefur verið hægt að fá prentun erlendis á stríðsárunum þannig að framleiðslan hefur flust heim. Líklegt er að lélegur vélakostur eða skortur á aðföngum í prentsmiðjunum hafi ekki leyft prentun í mörgum litum því flest kort frá þessum tíma eru svarthvít eða aðeins í tveimur litum. Þau eru aftur á móti afskaplega þjóðleg, t.d. með mynd af burstabæ, fólki á leið til kirkju, bónda að koma úr kaupstað með jólavarninginn, jólasveinunum og á stundum er myndefnið sótt í þjóðsögur. Nú eru það íslenskir listamenn sem teikna, flestir virðast eiga rætur í hinni gömlu grónu sveitamenningu og sækja þangað hugmyndir.

Ekki verða íslenskum jólakortum gerð skil öðruvísi en minnst sé á jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum sem fyrir löngu er orðið sígilt. Ég vil nefnilega halda því fram að skáldið hafi í raun með þessu skemmtilega ljóði sínu átt stóran þátt í að skapa íslensku jólasveinana eins og við þekkjum þá í dag. Það er þessa hressu náunga sem halda fast í ýmis vafasöm sérkenni sín, svo sem matarfíkn, ófyrirleitni, hvinnsku og kvensemi, þrátt fyrir að hafa orðið fyrir töluverðum erlendum áhrifum í klæðaburði og framkomu. Þessir sérkennilegu “karakterar”, þ.e. jólasveinarnir, hafa verið listamönnum, sem lagt hafa til myndir á jólakort, óþrjótandi uppspretta í gegnum árin og vil ég nefna þar sérstaklega listamennina Halldór Pétursson, Þórdísi Tryggvadóttur, Bjarna Jónsson og Selmu Jónsdóttur.

Á síðustu árum hafa jólakort tekið töluvert miklum breytingum.
Margir gera sín kort sjálfir og nota eigin ljósmyndir og oft er þá tækifærið notað af foreldrum til að gefa ættingjum, vinum og kunningjum kost á að fylgjast með vexti og viðgangi afkvæmanna. Aðrir fá útrás fyrir sköpunargleðina sem býr í okkur öllum með því að nota hugmyndaflugið við kortagerðina. Þá hefur tölvuvæðingin gert fólki auðvelt að útbúa bréf með fréttum og myndum af fjölskyldunni sem koma nú í korta stað.

Það er fallegur siður að senda jólakveðju og mínum huga eykur það gildið ef fáeinar línur fylgja með. Hvað er líka ljúfara en að setjast við lifandi ljós í skammdeginu og færa í orð kveðjur til vina og vandamanna.

 Arndís Þorvaldsdóttir