Skip to main content

admin

Aðsókn að safninu árið 2008

Í upphafi árs 2008 var byrjað að telja, með kerfisbundnum hætti, gesti sem sækja héraðsskjalasafnið heim. Tilgangurinn með talningunni var að safna nákvæmari upplýsingum um fjölda gesta en skráningar í gestabók sýndu, en lengi hafði starfsfólki safnsins verið ljóst að þær voru langt undir raunverulegum gestafjölda. Nú þegar árið 2008 er á enda er vert að reifa helstu niðurstöður talningarinnar.

Þess ber að geta að ekki voru aðeins gestir í safninu taldir á liðnu ári því auk þeirra var haldið utan um fjölda erinda sem bárust með síma og tölvupósti sem og fjölda skjala- og myndbeiðna. Skráð var fyrir hvern dag og var talningin þannig framkvæmd að starfsfólk bar saman bækur sínar í lok vinnudags og skráði gesta- og erinda- og beiðnafjölda dagsins. Hver gestur var aðeins skráður einu sinni hvern dag (jafnvel þó hann dveldi allan daginn eða kæmi og færi oft) og ekki var gerður greinarmunur gestum eftir erindum eða eftir því hve lengi þeir stöldruðu við. Þess ber að geta að fólk sem kom inn í safnið í persónulegum erindagjörðum við starfsmenn var ekki talið með.

Alls sóttu 1797 gestir héraðsskjalasafnið á nýliðnu ári, sem samsvarar því að hvern dag sem safnið var opið hafi rúmlega 7 gestir komið (utan við þessa tölu eru gestir sem mæta á ýmsa atburði í safnahúsinu). Tölurnar eftir árið sýna að aðsókn að safninu er ekki eins árstíðabundin og búast hefði mátt við. Meiri aðsókn var þó á síðari hluta ársins en hinum fyrri, en fyrstu sex mánuði ársins voru gestir 834 en þeir voru 963 seinni sex mánuðina. Engan mánuð ársins voru gestir undir 100 talsins. Fæstir voru þeir í september (105) og í þeim mánuði var eini dagur ársins þar sem enginn gestur sótti safnið. Októbermánuður sker sig hins vegar úr hvað varðar aðsókn. Þá voru gestir alls 272. Skýrst sú tala einkum af fjölda skólahópa sem þá sóttu safnið heim. Næstir október í gestafjölda voru febrúar og nóvember en í þeim mánuðum voru gestir um 200 talsins. Í janúar og júlí losaði gestafjöldinn 150 manns en aðra mánuði voru gestir á bilinu 105-134 talsins.

Ekki er hægt að draga neinar víðtækar ályktanir af niðurstöðum þessa árs en þó vekur athygli hve aðsóknin var góð yfir sumarmánuðina (júní 134/ júlí 152/ ágúst 123) miðað við það sem búast hefði mátt við. Helst virðist mega greina lægðir í aðsókninni beggja vegna sumarsins (í maí og september). Fróðlegt verður að ári liðnu að bera niðurstöður nýliðins árs við árið sem nú er að hefjast.

 Á árinu 2008 voru skráð erindi (í síma eða tölvupósti) alls 455 og skjala og myndbeiðnir voru 355. Um skráningu þessarar þátta gildir það sama og um skráningu gesta, þ.e. erindi, skjala- eða myndbeiðni er aðeins skráð einu sinni á hvern einstakling óháð því hvort sem viðkomandi biður um mikið eða lítið. Öfugt við gestafjöldann var fjöldi erinda, skjala- og myndbeiðna heldur meiri á fyrri hluta ársins en hinum síðari, mest var raunar af hvoru tveggju í janúarmánuði.