Skip to main content

admin

Skjalavarðafundur og safnaskóli

Um miðjan nýliðinn mánuð lagðist forstöðumaður héraðsskjalasafnsins í ferðalag á vegum stofnunarinnar í þeim tilgangi að hitta annað safnafólk. Annars vegar var um að ræða fund skjalavarða sem haldinn var í Stykkishólmi og hins vegar árlegan safnaskóla Félags íslenskra safna og safnmanna sem í ár var haldinn á Ísafirði. Er meiningin að gera hér stuttlega grein fyrir því sem fram fór á báðum stöðum. 

Það er afar mikilvægt fyrir okkur sem störfum í safnageiranum að hittast reglulega og bera saman bækur okkar. Mörg söfn landsins eru smá í sniðum og því lítið svigrúm til sérhæfingar. Starfsfólkið þarf að ganga í þau verk sem til falla en hefur of sjaldan tóm til að afla sér dýpri þekkingar á einstökum verkefnum. Smæð margra safna gerir því sameiginlega fundi safnafólks mikilvæga til að mynda tengsl og afla upplýsinga sem svo nýtast til að fá skilvirkni í dagleg störf.

Mánudaginn 15. september funduðu skjalaverðir landsins og starfsfólk Þjóðskjalasafns á Hótel Stykkishólmi. Einungis var um fimm klukkustunda langan fund að ræða og var það almennt viðhorf eftir fundinn að tíminn sem ætlaður hafi verið til hans hafi verið alltof skammur og nauðsynlegt sé að næstu fundir verði lengri og að skipulagi þeirra verði breytt svo að fundirnir megi nýtast betur. Á fundinum í Stykkishólmi voru kynnt nokkur yfirstandandi verkefni, þ.á m. innsláttar manntala sem unnið er að á þremur héraðsskjalasöfnum, m.a. í Héraðsskjalasafni Austfirðinga. En þetta verkefni er undir umsjón Þjóðskjalasafns. Aðalumræðuefni fundarins var þó úttekt sem Þorsteinn Tryggvi Másson, starfsmaður Þjóðskjalasafns, gerði á starfsemi héraðsskjalasafna landsins. Hann kynnti niðurstöður úttektarinnar fyrir fundarmönnum og kom þar ýmislegt á óvart bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Ljóst er að sum söfnin eru ekki í stakk búin til að sinna aðkallandi verkefnum og þurfa á aðstoð að halda eigi að bæta þar úr.  Önnur söfn komu nokkuð vel út úr úttektinni, þ.m.t. Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Því er vert að hrósa forsvarsmönnum sveitarfélaga hérna fyrir austan, sem standa að byggðasamlaginu um Héraðsskjalasafn Austfirðinga, fyrir þá framsýni sem þeir hafa sýnt með því að styðja vel að uppbyggingu safnsins og þannig gera það ágætlega í stakk búið til að sinna þeim mörgu verkefnum sem héraðsskjalasöfnunum er ætlað að sinna. Nánar mun verða fjallað hér um úttekina á stöðu safnanna eftir að endanleg útgáfa hennar hefur verið send út.

Á miðvikudeginum 17. september hófst svo farskóli Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) sem haldinn var á Ísafirði að þessu sinni. Þangað mætti sá sem þetta skrifar fyrir hönd Ljósmyndasafns Austurlands. Byggðasafn Ísfirðinga hafði veg og vanda af skipulagningu og framkvæmd safnaskólans þetta árið en dagskráin samanstóð einkum af fyrirlestrum, umræðum og skoðunarferðum. Veðrið setti allnokkurt strik í reikninginn framan af en úr rættist á fimmtudeginum og komust nær allir sem skráðir voru á vettvang. Mjög vel var staðið að framkvæmd safnaskólans þetta árið og eiga Ísfirðingar hrós skilið fyrir það. Uppbygging húsnæðis safnanna á Ísafirði er vel heppnuð og gaman er að sækja þau heim og endurspeglar það starf sem unnið hefur verið og sú aðstaða sem hefur verið byggð upp, afar vel hversu mikilvæg söfnin og þeirra starfsemi getur verið þar sem vel er hlúð að þeim. Þar er ég ekki aðeins að vísa til ferðaþjónustu heldur einnig til ýmiskonar menningarstarfsemi í heimabyggð sem rís upp af öflugu safnastarfi. 

 

Hrafnkell Lárusson