Skip to main content

admin

Vel heppnaður safna- og markaðsdagur

Síðastliðinn laugardag var haldinn safna- og markaðsdagur í safnahúsinu. Þessi atburður var liður í yfirstandandi Ormsteiti sem virðist ætla að verða afar vel heppnað þetta árið. Svo var einnig með safna- og markaðsdaginn sem hófst kl. 11 fyrir hádegi og stóð fram eftir degi. Þrátt fyrir að margt væri um að vera í afþreyingu og skemmtun þennan dag bæði á Egilsstöðum, Seyðisfirði og víðar í nágrenninu komu á þriðja hundrað gestir í safnahúsið á laugardaginn.

Sýningar minjasafnsins voru opnar og aðgangur að þeim ókeypis. Boðið var upp á kjötsúpu og lummur og rann hvort tveggja ljúflega í gesti. Leikarar og tónlistarmenn skemmtu gestum og safnið var lífgað við með ýmsum hætti. Starfsfólk safnahússins var að vonum ánægt með daginn, bæði góða aðsókn sem og góð viðbrögð gesta við því sem boðið var uppá. Það er afar ánægjulegt hversu mikinn áhuga fólk hér á svæðinu sýnir jafnan þeim atburðum sem safnahúsið stendur fyrir og er það afskaplega hvetjandi fyrir okkur sem störfum í húsinu. En það sýnir líka hve starfsemi hússins er mikilvægur liður í menningarlífi svæðisins.