Safna- og markaðsdagur
Næstkomandi laugardag, 16. ágúst, verður Safna- og markaðsdagur Ormsteitis. Þann dag verður mikið um að vera í og við safnahúsið frá kl. 11 um morguninn og fram til kl. 16 síðdegis. Markaðstjald verður staðsett við safnahúsið og mun þar verða á boðstólum ýmis varningur. Sýningar minjasafnsins lifna við, keppt verður í kleinubakstri, harmonikkuspilari þenur nikkuna og geta þeir sem vilja æft gömlu dansana. Félagar í leikfélaginu Frú Normu verða á staðnum með Soffíu mús og vini hennar.
Lokaatburður safna- og markaðsdagsins verður svo myndasýning á vegum Ljósmyndasafns Austurlands. Sýningin verður í Valaskjálf og hefst hún kl. 15. Sýndar verða myndir frá samkomum og bæjarhátíðum á Egilsstöðum á níunda og tíunda áratugi síðustu aldar. Allar myndirnar í sýningunni eru komnar úr myndasafni Vikublaðsins Austra en myndasafn þess var afhent Ljósmyndasafni Austurlands árið 2003.
Það er Arndís Þorvaldsdóttir, deildarstjóri Ljósmyndasafns Austurlands, sem hefur útbúið sýninguna og mun hún jafnframt segja frá efni myndanna á meðan á sýningunni stendur.