Skip to main content

admin

Við Heiðar og Fjallamenn

Á fyrri hluta nítjándu aldar hófst landnám í Jökuldalsheiði. Heiðin liggur upp afnorðanverðum Jökuldal og afmarkast að norðan verðu af Þríhyrningsfjallgarði og Möðrudalsfjallgarði eystri. Að austan rennur hún saman við heiðalöndin inn af Vopnafirði.

 Drög Hofsár í Vopnafirði ná langt inn á Jökuldalsheiði. Norðan fjallgarða taka við Möðrudalur á Efra-Fjalli og Möðrudalsöræfi. Byggðin á Efra-Fjalli er forn og líkur til að í öndverðu hafi verið þar hreppur sem afmarkast hefur af Jökulsá á Fjöllum að norðan og náð yfir byggðina á Neðra-Fjall (Hólsfjöll). Landamerki að sunnan verðu hafa legið um miðja Jökuldalsheiði, þar hafa þessi hreppamörk legið um mitt Sænautavatn. Páll Pálsson frá Aðalbóli hefur rannsakað þessa byggð og hefur fundið hluta af hinum fornu hreppamörkum sem afmörkuð hafa verið í landið. Byggðin sem reis í Jökulsdalsheiði á nítjándu öld var að hluta reist á rústum fornbýla og selja. Fyrsta býlið sem reist var í heiðinni á þessu seinna byggingarskeiði voru Háreksstaðir en þar var byggt upp árið 1841. Á næstu tveimur áratugum risu alls 16 býli í Jökuldalsheiði það síðasta Lindasel árið 1862. Heiðarbýlin voru misjöfn að gæðum og byggingatíminn var mjög mislangur. Þannig var aðeins búið í eitt ár á Hólmavatni, en á Sænautaseli stóð byggðin í nærfellt eina öld. Byggðin í heiðinni byggði mikið á hlunnindum eins og veiði í vötnum, grasatekju og fuglaveiði. Þá voru þar víða góð engjalönd. Þar var haft á orði að um aldamótin 1900 bjuggu á Grunnavatni hjónin Jón Jónsson og Kristrún Gunnlaugsdóttir. Í búskapartíð þeirra var byggð þar stærsta heyhlaða í Jökuldalshreppi. Jón og Kristrún fluttu til Ameríku eftir að bærinn á Grunnavatni brann. Það er víða fallegt í Jökuldalsheiði og á heitum sumardögum er heiðin sannkölluð paradís, en gjörólík þeirri mynd eru vorharðindi sem engu eirðu. Þá var þrautaráðið að reka búsamalann niður á Jökuldal þar sem treysta varð á þegnskap bænda. Rithöfundurinn Jón Trausti notaði heiðabyggðir í Norður-Þingeyjarsýslu sem sögusvið í sögum sínum af Höllu og Heiðarbýlinu. Þar er Aðalsteinn læknir rödd nútímans, hann mætti á hreppsnefndarfund þar sem hann las nefndarmönnum pistilinn, þar segir m.a; „Ég hef minst þar á ýmsa sjúkdóma, en ekki sjúkdóm sjúkdómanna í þessum eymdarkotum, sem sé hungrið,...“ Aðalsteinn heldur áfram „Annað aðalmeinið í kotabúskapnum ... er myrkrið“. 

Möðrudals á Efra-Fjalli getur í Hrafnkels sögu Freysgoða. Næst er Möðrudals getið í máldagaskrá Vilkins Skálholtsbiskups frá 1397 þá er þar „allra heilagra kirkja“ Á þeim tíma hefur verið fjölmenn byggð á Fjöllum sem að líkindum hefur verið þjónað frá Möðrudal auk þess áttu bæir á Efra-Jökuldal kirkjusókn þangað. Byggð hefur lengst af verið í Möðrudal, á átjándu öld lagðist hún þó af í nokkur ár. Möðrudalur hefur alla tíð þótt kosta jörð. Þar bjuggu stórbrotnir höfðingjar við mikla rausn. Sigurður Jónsson sem bjó í Möðrudal frá 1842 til 1874 var fjárríkur mannkostamaður. Til hans var leitað af heiðarbúum til að taka á móti börnum. Tengdasonur Sigurðar var Stefán Einarsson sem bjó í Möðrudal með litlum hléum frá 1875 til 1916. Eftir hann bjó þar listamaðurinn Jón Stefánsson , sem landsfrægur var fyrir rausn og listfengi. Jón reisti kirkju í Möðrudal til minningar um konu sína Þórunni Vilhjálmsdóttur. Nú búa í Möðrudal feðgarnir Vernharður Vilhjálmsson sonarsonur Jóns og Vilhjálmur Vernharðsson.
Það er þessi byggð Möðrudalur og Jökuldalsheiði sem er viðfangsefnið í sýningunni „Við Heiðar-og Fjallamenn“.

“Fúlir standa Fjallamenn í fjörugrýti,
ataðir í aur og skíti,
allir fara þeir í víti.”
Vilhjálmur Oddsen Hrappsstöðum í Vopnafirði.

“Vilhjálmur oss vinarkveðju vandað hefur,
Viðmótsþýður var sem refur,
Vopnafjarðargáttaþefur.”
Kristján Jónsson Fjallaskáld.

Sjá nánar á www.skjalasafn.is