Fjölmennt á sumarfagnaði
Margt fólk lagði leið sína í Safnahúsið á sumardaginn fyrsta og tók þátt í sumarfagnaði safnanna þriggja sem þar eru til húsa. Minjasafnið var opið í tilefni dagsins og var gestum boðið upp á rjómavöfflur og kakó að þjóðlegum sið. Mæltist það afar vel fyrir og hafðist vart undan að framreiða veitingarnar.
Páll Sigfússon var í sýningarsal minjasafnsins og lék þar lög fyrir gesti á harmonikkuna sína. Í hinum enda salarins sat Kristrún Jónsdóttir og las fyrir gesti. En allir gestir safnahússins þennan dag fengu við komuna afhenta litla sumargjöf í formi ávísunar á lítið ljóð eða sögu sem Kristrún flutti þeim. Mæltist það afar vel fyrir, en á meðal höfunda sem lesið var efni eftir voru Þórarinn Eldjárn, Halldór Laxness, Böðvar Guðmundsson, Eva Hjálmarsdóttir, Þóra Guðmundsdóttir og Davíð Stefánsson.
Þegar talið var í gestabókinni við lok dags reyndust skráðir gestir hafa verið hátt í 90 talsins, en ljóst er þó að ekki munu allir gestirnir hafa ritað nafn sitt svo vel má vera að þeir hafi verið nokkru fleiri. En hvað sem því líður verður þetta að teljast góð aðsókn á þeim réttu tveimur tímum sem safnið var opið þennan dag. Er þessi aðsókn aðeins eitt fjölmargra dæma um þá ræktarsemi sem margir íbúar svæðisins sýna starfsemi safnahússins.
Mikið var um fjölskyldufólk meðal gesta safnsins á sumardaginn fyrsta og gladdi það starfsmenn safnahússins að sjá svo mörg börn í húsinu sem vonandi verða tryggir safngestir í framtíðinni.