Skip to main content

admin

Ný heimasíða héraðsskjalasafnsins

Héraðsskjalasafn Austfirðinga hefur opnað nýja heimasíðu. Hún leysir af hólmi eldri heimasíðu safnsins sem tekin var í notkun árið 2000 og var fyrir löngu orðin úrelt, bæði þung í vöfum og bauð upp á takmarkaða möguleika. Nýja heimasíðan er unnin af Austurneti ehf, þeim Tjörva Hrafnkelssyni, Þórunni Hálfdánardóttur og Unnari Erlingssyni, en þau unnu samhliða nýjar heimasíður fyrir héraðsskjalasafnið og fyrir Minjasafn Austurlands. Slóðin á nýja heimasíðu minjasafnsins er www.minjasafn.is og verður hún tilbúin á næstu dögum. 

Það er mikilvægt fyrir stofnun eins og Héraðsskjalasafn Austfirðinga að geta miðlað upplýsingum og fróðleik í gegnum vefsvæði, enda vefurinn fyrir löngu orðinn helsti vettvangur upplýsingaleitar fólks hér á landi, líkt og víðar í heiminum.

Við hönnun heimasíðunnar var leitast við að gera hana einfalda og þægilega í notkun. Þegar síðan er opnuð birtast helstu efnisflokkar, hver í sínum ramma og er nýjasta efnið ávallt efst í hverjum. Jafnan birtist stuttur inndráttur með hverjum pistli, tilkynningu, frétt eða fróðleiksmola en með því að klikka með bendlinum á fyrirsagnir má kalla fram allt efnið sem á við viðkomandi fyrirsögn. Eldra efni mun svo með tímanum safnast saman á öðrum stað á síðunni og má t.d. nálgast eldri fréttir og tilkynningar með því að styðja á flipann "Fréttir" í línunni efst á síðunni. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar um starfsemi safnsins og safnkost þess. Á forsíðunni gefur einnig að líta upplýsingar um opnunartíma safnsins, auk viðburðadagatals þar sem birtar verða stuttar tilkynningar um viðburði á vegum safnsins, fundi eða annað sem tengist starfseminni.

Héraðsskjalasafnið hýsir Ljósmyndasafn Austurlands og verður fastur liður á heimasíðunni að birta efni úr safnkosti þess. Nú þegar má skoða á síðunni tvær sýningar, en auk opnunarsýningarinnar, sem ætlað er að sýna ákveðið þversnið af fjölbreyttum safnkosti ljósmyndasafnsins, er hægt að skoða eldri myndasýningu sem var á gömlu heimasíðunni. Efni hennar var flutt yfir á nýju síðuna og er því aðgengilegt áfram þó svo að sú síða hafi nú verið lögð niður.

Þeir sem vilja komast á póstlista safnsins og fá tilkynningar um nýtt efni á síðunni geta skráð sig með því að senda póst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Einnig hvetjum við fólk til að senda okkur ábendingar um heimasíðuna, efni hennar og frágang. Heimasíður sem þessi þurfa að vera í sífelldri þróun og því er mikilvægt að fá ábendingar frá notendum um hvað betur má fara.

Formlegur opnunardagur nýju heimsíðunnar er á morgun, 1. maí 2008. Er það vel við hæfi að formlega opnun heimasíðu Héraðsskjalasafns Austfirðinga beri upp á frídag verkalýðsins þar sem fyrrum forstöðumaður safnsins, Hrafnkell A. Jónssonar, var lengi í forystusveit austfirsks verkalýðs. Í tíð Hrafnkels A. Jónssonar, sem forstöðumanns, var í fyrsta sinn opnuð heimasíða fyrir safnið og hafði hann alla tíð umsjón með þeirri síðu. Það er því vel við hæfi að minnast hann af þessu tilefni. 

Með von um að nýja heimasíðan geti orðið notendum hennar til gagns og ánægju.

Hrafnkell Lárusson

forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga