Skip to main content

admin

Þjóðhátíðardagur

Þrátt fyrir leiðinlegt veður hér eystra undanfarna daga hélt fólk hér sem annarsstaðar á landinu upp á Þjóðhátíðardaginn 17. júní. Hátíðahöldin drógu þó dálítið dám af veðrinu og voru þau flutt í hús sumsstaðar, þ.á m. hér á Egilsstöðum. Safnahúsið var að venju opið á Þjóðhátíðardaginn.

Það má líklega kenna veðrinu að mestu leyti um að aðsóknin að safnahúsinu var minni á Þjóðhátíðardaginn í ár miðað við síðasta ár. Í ár komu um 100 manns í safnahúsið á 17. júní en sú tala var ríflega tvöfalt hærri í fyrra, en þá fóru hátíðahöldin fram í góðu veðri í Lómatjarnargarði (sem er við hliðina á safnahúsinu) og komu þá margir og litu við í safnahúsinu þegar þeir voru annað hvort að koma á eða yfirgefa hátíðarsvæðið.

Grunnsýning Minjasafns Austurlands var opin á Þjóðhátíðardaginn en auk hennar gátu gestir safnsins virt fyrir sér nýju sumarsýninguna Ó-líKINDi, sem opnuð var formlega sl. laugardag, 14. júní. Að auki var á staðnum Guttormur Sigfússon harmonikkuleikari og lék hann lög fyrir gesti.