Dagbókarbrot frá búskap í Papey
Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga er varðveitt dagbók Ara Brynjólfssonar (síðar bónda á Þverhamri við Breiðdalsvík) frá búskap hans í Papey. Ari keypti Papey árið 1882 af hjónunum Rósu Snorradóttur og Jóni Þorvarðarsyni sem fluttu það ár til Vesturheimis en kona Ara, Ingibjörg Högnadóttir, var fósturdóttur þeirra hjóna.
Ekki gat Ari greitt jarðarverðið út í hönd og fór svo að Lárus Guðmundsson, kallaður hinn ríki, bauðst til að ganga inn í kaupin og ákvað Jón að taka tilboði hans þar sem hann var að fara af landi brott. Ari bjó því aðeins tæpt ár í Papey og hefst dagbókin í júní 1882 og endar í mars 1883. Dagbókin geymir stuttorðaðar lýsingar af annasömum dögum bóndans og hjúa hans. Það er gengið til eggja, stundaðar fuglaveiðar, róið til fiskjar, hefðbundnum búskap sinnt og allar afurðirnar af landi og sjó nýttar af kostgæfni. Þegar gefast stundir smíðar bóndinn húsgögn og búshluti eða bindur inn bækur. Hér á eftir fara nokkrar færslur úr dagbókinni, valdar með það fyrir augum að þær gefi lesandanum örlitla innsýn í daglegt líf í Papey í síðari hluta 19. aldar.
7. jún. Austan kuldaveður. Fyrsta sinn gengið í Flateyna og dálítið stikk af heima eynni, 250 egg fengust og 62 lundar. Í Flateyna var gengið á hafís. 3 skip lögðu inn á Berufjörð.
21. jún. Var axsjón haldin í frönsku skipi og fleira.
26. jún. Fóru piltar í land eftir 5 tunnum af salti sem ég keypti á axsjóninni. Úteyjan gengin og fengust 85 egg. Þá fréttist að Sæmundsen sé kominn og Jón Jónatansson ásamt konu sinni í Héraðið.
3. júl. Var fært frá 13 ám en 1 lambið skorið. 150 lundar drepnir.
16. júl. Var hvassviðri af norðaustri og gekk á með skúrum. Þá embættaði séra Þorsteinn, tók til altaris og gaf okkur Ingibjörgu saman í hjónaband.
24. júl. Var byrjað að taka ritsungann og fengust 825 úr allri Árhöfninni.
25. júl. Tókum við unga úr Hrafnabjörgunum, Eldriðanum og Höfðanum. 62 úr Hrafnab., 50 úr Eldriðanum og 417 úr Höfðanum. Alls 537. Þar var reitt, Margrét 100, Guðný hér 80, Þórey 90 og Elín 100, alls 465. Nafnar fóru í land með ull og fl. 3 reitingakonur komu í dag.
29. júl. Slóum við piltar 450 lunda. Brynjólfur var vesæll, 100 ungar voru reittir, alls hef ég fengið 1800 ritsunga.
6. ág. Brynjólfur byrjaði að raspa dúninn. Eiríkur og Jón á sjó og öfluðu 124. Ég sló 80 lunda.
17. ág. Byrjuðum við að slá og eftir fórum við að grafa lunda og fengum 614. Tveir menn komu frá Berunesi og verða hér í nótt.
18. ág. Regn af og til. Piltar af og til að slá. Eiríkur blindfullur og þeir frá Brimnesi tepptust hér í dag.
28. ág. Var loks þurrkur. Þá settum við í Flateyna 8 ær sem ég á og 1 sem Eiríkur á og í Höfðann 6 veturgamlar. Piltar tveir að reita. Einn að raka.
19. sept. Hvessti vestan um hádegi. Piltar öfluðu 80 og 1 löngu. Við Jón fórum inn í Arnarey. Ég skaut 2 seli og við fengum 4 fiska. Tók 6 bagga af heyi.
24. sept. Þá komu tveir Árnar frá Karlsstöðum.
25. sept. Sendi ég pilta inn að Geithellum eftir skyri. Árnarnir fóru og sendi ég með þeim bréf til Gísla á Ey. Dominion Linen og Jóni Hávarssyni ásamt fiðurpoka. Við Brynjólfur fórum á sjó og fengum 40 drætti og 1 skötu.
26. sept. Fórum við enn á sjó og fengum 10 drætti. Piltar komu með 2 hálftunnur af skyri og 5 pk. af smjöri.
7. okt. Vestan hægur. Brynjólfur, Jón og Siggi fóru í land. Ég skrifaði Valdimar bréf og sendi veðurtöfluna í land.
8. okt. Þá komu þeir út aftur með mörg bréf þar á meðal 1 frá Jóni í Eyjum. Margrét kom út Álftafjarðarferðinni. Fjárkaupaskip kom eftir fé á Djúpavog, um 600 fjár. Við allir piltarnir fórum í land og Oddbjörg með 26 kindur á báðum bátum. Þar af átti Eiríkur 4.
28. okt. Gott veður. Þá fórum við í land með dún og fiður. 37 ½ til kapteinsins, 16 til Kæsers, 20 til Halldórs, 40 til séra Péturs og 24 sem Jón fór með. Það er 94 af lundaunga fiðri, 40 af lundafiðri og 15 af rissufiðri. Hávarður kom með okkur út. Ég skrifaði inn til gamla Jóns 660 kr. Til séra Þorsteins 13 kr. og 72 aura.
30. okt. Svipað veður, slátruðum 8 kindum og vógu allir skrokkarnir 282 pund.
16. nóv. Sunnan, 4° hiti. Hníflarnir komnir ofan út Höfðanum. G. skaut á sel og missti hann, báðum bátunum hvoflt. Ég setti skápinn minn niður.
23. des. Skar ég eina á til jólanna.
19. janúar 1883. Var stöðug óstilling svo ekki hefur verið fært í land fyrr en nú að piltar fóru með þá Jón og Einar eftir að hafa verið hér á 5. viku. Ég sendi lunda og fiður handa Jóni í Eyjum, Bjarna á Heyklifi, og Jóni á Bragðavöllum. Líka dún til Guðmundar á Eyjum.
8. mars. Logn og heiðríkjur allan daginn. Piltar fóru 3 í setu, fengu 1 hákall er þeir slepptu undir borði. Litlu síðar var einn svo þungstígur að hann steig út í gegnum bátinn. Náðu við illan leik í land með yfirhafnir sínar í gatinu, en 70 faðma stjóra skyldu þeir eftir við krakann niður á „Iðu“ sem er ófundið. Hér kom Jón í kaupstaðnum og tveir matrósar hans!! og höfðu fengið 2 hnísur.
15. mars. Norðan framan af, lygndi svo. Þá fóru piltar í setu og fengu þeir 3 litla hákarla. Ég lauk við komóðuna og kíttaði hana. Svartkusu var haldið.
Aftast í bókinni heldur Ari skrá yfir aflafeng. Þar kemur fram að í búskapartíð hans komu á land 814 fiskar, 14 sprökur, 64 skötur, 19 löngur og 522 ýsur. Ennfremur voru teknir 4660 lundaungar, 2030 ritsungar og 3548 lundar.
Arndís Þorvaldsdóttir