Skip to main content

admin

Ágrip af sögu og starfsemi

Héraðsskjalasafn Austfirðinga er sjálfstæð skjalavörslustofnun sem lítur faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns Íslands. Safnið var stofnað árið 1976. Síðan 1992 hefur safnið verið rekið sem byggðasamlag en aðilar að því eru öll sveitarfélög í Múlasýslum sem nú eru átta talsins – Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur.

Að afloknum sveitarstjórnakosningum skipar hvert sveitarfélag sinn fulltrúa í fulltrúaráð Héraðsskjalasafnsins. Fulltrúaráðið kýs svo stjórn safnsins úr sínum hópi.  

Héraðsskjalasafn Austfirðinga starfar samkvæmt lögum um Þjóðskjalasafn (nr. 66/1985) og Reglugerð um héraðsskjalasöfn (nr. 283/1994). Meginhlutverk safnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila (sveitarfélaga og stofnana þeirra), skrá þau og varðveita. Héraðsskjalasafnið tekur einnig við einkaskjölum, t.d. bréfasöfnum og dagbókum einstaklinga, skjölum félaga og fyrirtækja o.s.frv., og er mikið af þesskonar efni í safninu. Af slíku efni er jafnan mikill fengur enda oft að finna í því upplýsingar um samfélög liðins tíma sem ekki er að finna annarsstaðar.

Auk skjalasafnsins sjálfs heyra Ljósmyndasafn Austurlands og Bókasafn Halldórs Ásgrímssonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur undir Héraðsskjalasafnið. Ljósmyndasafnið er í eigu Héraðsskjalasafnsins, Minjasafns Austurlands og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, en það er hýst í Héraðsskjalasafninu og rekið undir hatti þess.

Í Héraðsskjalasafninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir og er það samdóma álit margra sem nýtt hafa aðstöðuna til rannsókna eða náms að það sé mikill fengur af sambýli safnanna þriggja sem heyra undir Héraðsskjalasafnið. Öll söfnin í Héraðsskjalasafninu – skjalasafnið, ljósmyndasafnið og bókasafnið – stækka ört og luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreytt verkefni og rannsóknir, hvort heldur sem þær eru framkvæmdar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Í skjalasafninu má t.d. finna upplýsingar um örnefni, landamerki og um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu gögn sín.

Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga hefur þrjá fasta starfsmenn í samtals 2,5 stöðugildi. Veigamikill þáttur í okkar starfi er að svara erindum fólks og liðsinna varðandi heimildaleit. Ég hvet fólk eindregið til að hafa samband við okkur eða koma í heimsókn telji það sig geta haft gagn af þjónustu okkar. Safnið er til húsa að Laufskógum 1 á Egilsstöðum.
Það hefur verið kappsmál þess sem þetta skrifar, frá því að ég tók við starfi forstöðumanns Héraðsskjalasafnsins í byrjun árs 2008, að leitast við að þjónusta allt starfssvæði safnsins eins vel og unnt er. Héraðsskjalasafnið er enda safn fyrir allt Austurland en ekki einungis fyrir byggðarlagið sem það er staðsett í.

Að lokum vil ég benda á að á heimsíðu Héraðsskjalasafnsins (www.heraust.is) má finna ýmsar upplýsingar um starfsemi okkar auk þess sem þar eru reglulega settar inn ljósmyndasýningar.

Hrafnkell Lárusson
forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga