Skip to main content

admin

Góð framvinda í ljósmyndaverkefninu

Í byrjun febrúar sl. hófst vinna við verkefni við skráningu, skönnun og frágang ljósmynda hjá Héraðsskjalasafninu, en verkefnið er samvinnuverkefni þriggja héraðsskjalasafna. Nú þegar vinnan hefur staðið yfir í rúma þrjá mánuði hafa um 14.000 myndir verið skannaðar og búið er að skrá meginþorra þeirra.  

Það efni sem hefur verið skráð kemur úr ýmsum einkasöfnum sem afhent hafa verið Ljósmyndasafni Austurlands á liðnum árum. Stærstu einstöku söfnin sem hafa verið skönnuð eru filmusöfn Sigurðar Aðalsteinssonar (um 5000 myndir) og Önnu Ingólfsdóttur (um 4000 myndir) en bæði störfuðu þau sem fréttaritarar Morgunblaðsins á Austurlandi. Skönnun á safni Sigurðar er raunar ekki lokið. Þó stærstur hluti myndanna sem hafa verið skannaðar komi úr þessum tveimur söfnum hafa alls 13 einkasöfn, sem telja meira en 100 myndir, verið skönnuð . Er nær eingöngu um að ræða skönnun á filmum, mest 35 mm en einnig aðrar stærðir. Enn er mikið óunnið og má þar nefna filmusafn Vikublaðsins Austra en kópísafn þess, sem telur um 18.000 myndir, var skráð hjá Héraðsskjalasafninu á árunum 2004 og 2005.

Þrír starfsmenn hafa starfað að verkefni frá byrjun. Í dag lét Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir af störfum en hún hefur haft umsjón með verkefninu frá byrjun. Í hennar stað hefur Magnhildur Björg Björnsdóttir hafið störf við verkefnið.