Skip to main content

admin

Eiríkur Sigurðsson skólastjóri, skjöl hans og ritstörf

Skjöl margra einstaklinga sem haft hafa áhrif á austfirskt samfélag með verkum sínum eða skrifum eru varðveitt hér í Héraðsskjalasafninu. Í nýjum fróðleikspistli fjallar Guðgeir Ingvarsson um einn þessara manna, Eirík Sigurðsson skólastjóra frá Dísarstöðum í Breiðdal.

Eiríkur Sigurðsson var fæddur í Hamarsseli í Geithellnahreppi 16. október 1903. Foreldrar hans voru Sigurður Þórðarson bóndi í Borgargarði við Djúpavog og á Dísarstöðum í Breiðdal og kona hans Valgerður Mekkin Eiríksdóttir frá Hlíð í Lóni. Eiríkur var í Eiðaskóla 1922-1924 og síðan í Lýðháskólanum í Askov 1925-26 (og sótti námskeið þar síðar). Hann var í kennaraskóla í Kaupmannahöfn 1925-1927 en lauk kennaraprófi 1933. Ekki verður rakinn hér starfsferill Eiríks, en aðalstarf hans var kennsla og skólastjórn og var hann lengi skólastjóri Oddeyrarskóla á Akureyri. Enda þótt Eiríkur væri búsettur og starfandi á Akureyri stærstan hluta starfsferils síns, lét hann sig málefni Austurlands ávallt miklu varða og var alla ævi mikill Austfirðingur og unnandi Austurlands.

Hér í Héraðsskjalasafni Austfirðinga er allmikið safn þátta og erinda, frumsaminna smásagna, leikþátta, lausavísna og ljóða eftir Eirík auk efnis eftir aðra höfunda , sem hann hefur haldið til haga. Alls eru hér skráð 391 númer í einkasafni Eiríks og kennir þar margra grasa. Á meðal þess sem hann skrifaði um og varðveitt er hér í safninu má nefna: Þætti um örnefni og örnefnasögur, um Mekkinar-nafnið, um sögu Breiðdals þar á meðal um sveitarblöð í Breiðdal og lestrarfélag þar og ýmsa þætti um aðra staði á Austfjörðum svo sem þætti um staðhætti og félagslíf á Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Seyðisfirði. Eiríkur skrifaði um Austfirðingafélagið á Akureyri og fleiri félög. Átti hann sæti í stjórn Austfirðingafélagsins og var formaður þess í mörg ár. Þess má geta að Eiríkur vann að undirbúningi kvikmyndar um Austurland ásamt Eðvarð Sigurgeirssyni ljósmyndara. Hann ferðaðist þá um og valdi góða tökustaði og skrifaði kynningar- og skýringatexta fyrir myndina sem varðveittir eru hér í safninu. Þá eru hér varðveittar allmargar greinar sem hann hefur skrifað um guðspeki, en sumt af því hefur birst á prenti. Hann skrifaði m.a. um guðspekistúkuna Systkinabandið á Akureyri og var í stjórn hennar frá 1942 og síðar formaður um árabil. Eiríkur starfaði mikið að bindindismálum, var gæslumaður barnastúku og gengdi starfi stórfræðslustjóra í Stórstúku Íslands um skeið. Af öðrum efnum sem Eiríkur fjallaði um í skrifum sínum má nefna fornminjar á Austurlandi, fólksflutninga úr Skaftafellssýslum til Austurlands og greinar um ýmsa fornmenn sem sagt er frá í fornsögum. Þá skrifaði hann um ýmis skáld og listamenn einkum Austfirðinga svo sem Pál Ólafsson skáld, Björgvin Guðmundsson tónskáld, Helga Valtýsson rithöfund, Jón Trausta, Jóhannes Kjarval, Stefán Eiríksson myndskera, Kristján frá Djúpalæk, Margréti Jónsdóttur skáldkonu, Sigurð Kristófer Péturson og ýmsa aðra merkismenn og konur. Einnig er hér talsvert bréfasafn frá ýmsum bréfriturum sem hann hefur skrifast á við m.a. frá ýmsum skólamönnum, listamönnum og rithöfundum.

Eiríkur var mikill félagsmálamaður og kom víða við enda áhugamál hans mörg og fjölbreytileg. Eftir hann liggja fjölmargar bækur bæði frumsamdar og þýddar auk fjölda greina í blöðum og tímaritum. Frumsamdar bækur hans munu vera töluvert á þriðja tuginn, en þar af eru um 15 frumsamdar barna- og unglingabækur. Eru þá ótaldir bókarkaflar eftir hann í einstökum bókum. Auk frumsamins efnis þýddi hann hátt í tvo tugi bóka, flest barna- og unglingabækur.

Ýmsar merkar bækur komu frá hendi Eiríks. Má þar t. d. nefna Undir Búlandstindi, austfirskir þættir er kom út 1970 og Af sjónarhrauni, austfirskir þættir, 1976. Er þar m.a. merkur þáttur um prentlist á Austurlandi og útgáfu blaða og bóka hér eystra til 1975. Árið 1978 kom út eftir hann bókin Af Héraði og úr Fjörðum, austfirskir þættir. Hann safnaði einnig og skráði frásagnir fólks um dulsýnir og lækningar Margrétar frá Öxnafelli og komu þær út í tveimur bindum 1960 og 1963 undir nafninu Skyggna konan. Af bókum sem hann ritaði ásamt öðrum má nefna, að hann var annar aðalhöfundur og ritstjóri Breiðdælu hinnar nýju sem kom út í tveimur bindum.

Hér hefur verið stiklað á stóru um ritverk Eiríks Sigurðssonar, en síðasta bók hans: Æviþættir Austfirðings, sem eru minningaþættir hans, kom út 1980 sama ár og hann lést.

Í byrjun september 2010
Guðgeir Ingvarsson.