Skip to main content

admin

Prjónaganga endar í Safnahúsinu

Á kvenréttindadaginn, föstudaginn 19. júní, stendur Soroptimistaklúbbur Austurlands fyrir prjónagöngu í samstarfi við Safnahúsið. Héraðsskjalasafnið sýnir ýmis skjöl og ljósmyndir frá lífi og starfi kvenna á Austurlandi.

Gangan hefst kl. 13:15 en henni er ætlað að heiðra minningu formæðranna sem aldrei féll verk úr hendi og gengu prjónandi á milli bæja til að nýta tímann. Lagt verður af stað úr fjórum áttum og gengið prjónandi um 2 km að Egilsstaðakirkju þar sem flutt verða minningabrot um konur liðinna tíma. Gangan endar í Safnahúsinu en ókeypis aðgangur er að sýningum á öllum hæðum í tilefni dagsins. Nánari upplýsingar um prjónagönguna má nálgast á vef Soroptimistaklúbbs Austurlands. 

Á Héraðsskjalasafni Austfirðinga stendur yfir ljósmyndasýning um austfirska kvenljósmyndara. Á sýningunni er varpað ljósi á fjórtán ólíkar konur sem lærðu ljósmyndun, störfuðu á ljósmyndastofum og tóku myndir á Austurlandi á árunum 1871-1944. Auk þess hafa starfsmenn safnsins dregið fram áhugaverð skjöl og ljósmyndir af námi og störfum kvenna á Austurlandi.

Auk þess hefur safnið, í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Minjasafn Austurlands, sett upp veggspjöld í stigagangi hússins þar sem saga kvenréttindabaráttu er rakin. Um er að ræða farandsýningu frá Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Á sýningunni og á vefsíðunni konurogstjornmal.is er rakin saga kosningaréttar á Íslandi og sérstaklega kosningaréttar kvenna, auk þess sem áföngum í kvennabaráttu og jafnréttismálum eru gerð skil.

Kosningaréttur kvenna á Íslandi 100 ára

Árið 1915 fengu allar konur og karlmenn 25 ára og eldri kosningarétt, þó með þeim takmörkunum að miða skyldi við 40 ára aldur kvenna og vinnumanna, sem ekki höfðu haft kosningarétt áður. Aldursákvæðið skyldi síðan lækka um eitt ár árlega þar til það næði 25 árum. Reyndin varð hins vegar sú að 1920 fengu allir jafnan kosningarétt, bæði konur og karlar og var miðað við 25 ára aldur. Smám saman var kosningaaldur lækkaður og síðast í 18 ár árið 1984.