Opnun ljósmyndavefs
Ljósmyndavefur á slóðinni myndir.heraust.is var opnaður 28. maí. Á vefnum eru um 55 þúsund myndir í eigu Ljósmyndasafns Austurlands, sem er sérstök deild innan Héraðsskjalasafnsins.
Þar er hægt að skoða fjölbreytt myndasöfn allt frá mannamyndum teknum fyrir aldamótin 1900 til frétta- og íþróttamynda frá síðari helmingi 20. aldar.
Vefurinn er afrakstur sérstaks átaksverkefnis um skönnun og skráningu ljósmynda sem hefur staðið yfir frá árinu 2011 með sérstökum styrk frá ríkissjóði, Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi og fleiri aðilum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga.
Heildarfjöldi mynda hjá Ljósmyndasafni Austurlands er um 80 þúsund og sífellt bætist við safnið. Myndum á ljósmyndavefnum á því eftir að fjölga enn frekar eftir því sem fjármagn fæst í verkefnið.