Skip to main content

admin

Safnkosturinn nýttur sem gluggaskraut

Nýverið var ákveðið að gera tilraun með að skreyta gaflglugga á neðstu hæð Safnahússins með mynd sem fengin er úr skjalasafninu.

mynd gluggi

Tilgangurinn er þó ekki eingöngu fagurfræðilegur, heldur einkum að skapa betri vinnuaðstöðu fyrir þá sem fyrir innan sitja. Það skemmir þó ekki fyrir að filman sem sett er á gluggann kemur svona ljómandi vel út. Hún er þeirrar náttúru að ekki sést inn um hana heldur aðeins myndefnið, en þó berst hæfileg birta inn um gluggann og betur sést út um hann en inn.

Í tilraunaskyni var valin opna úr einni af hreppsbókunum sem undanfarin ár hefur verið unnið að því að skanna og gera aðgengilegar á vef safnsins. Um er að ræða færslu í hreppsbók Borgarfjarðarhrepps fyrir árin 1814 til 1838 og varðar ómagaframfærslu árið 1816. Ekki var þessi opna þó valin efnisins vegna heldur fremur vegna fallegrar rithandar og annarra útlitseinkenna.

Teiknistofan AKS sá um að prenta filmuna og setja í gluggann og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir góða þjónustu.