Skessur éta karla í Safnahúsinu
Í Safnahúsinu á Egilsstöðum getur nú að líta sýningu um tröllskessur í íslenskum þjóðsögum.
Sýningin er afrakstur rannsókna Dagrúnar Óskar Jónsdóttir þjóðfræðings sem hefur rannsakað mannát, hvernig það birtist í þjóðsögunum og hvað það getur sagt okkur um samfélagið sem sögurnar tilheyra. Í rannsóknum sínum fléttar Dagrún saman þjóðsögum og nútíma hugmyndum um femínisma og bregður þannig ljósi á nýjar hliðar bæði á þjóðsögunum og ójafnrétti kynjanna.
„Þjóðsagnir endurspegla á vissan hátt hugmyndaheim og heimsmynd þeirra sem þeim safna og þær hafa skrifað. Tröllskessur ráða ríkjum í tröllaheiminum og í sögum af mannáti eru það nánast alltaf tröllskessur sem éta mennska karlmenn. Það voru aðallega karlar sem söfnuðu, skrifuðu og gáfu út þjóðsagnaefni og hafa fræðimenn velt því fyrir sér hvort þessi birtingarmynd kvenna sem éta karla geti endurspeglað á einhvern hátt ótta karla við að missa völd sín yfir konunum,“ segir Dagrún. Á sýningunni miðlar Dagrún niðurstöðum rannsókna sinna á veggspjöldum sem eru fagurlega myndskreytt með vatnslitamyndum Sunnevu Guðrúnar Þórðardóttur.
Sýningin hefur áður verið sett upp víða um land, til dæmis á Ísafirði, Hólmavík, Akureyri og í Reykjavík. Sýningin er staðsett á neðstu hæð Safnahússins, í rýminu fyrir framan Héraðsskjalasafnið, og mun hún standa til haustsins. Við hvetjum gesti og gangandi til að líta við og skoða sýninguna. Einnig er í Safnahúsinu enn að finna hluta sýningarinnar Eyðibýli á heimaslóðum, sem var lokaverkefni Önnu Birnu Jakobsdóttur frá Menntaskólanum á Egilsstöðum.