Nýr forstöðumaður
Stefán Bogi Sveinsson verður næsti forstöðumaður hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Bára Stefánsdóttir lýkur störfum 30. júní.
Fimm umsóknir bárust um stöðuna og ákvað stjórn safnsins á fundi 9. apríl sl. að ráða Stefán Boga Sveinsson sem næsta forstöðumann Héraðsskjalsafns Austfirðinga.
Héraðsskjalasafn Austfirðinga bs. er byggðasamlag í eigu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi. Fjórir fulltrúar sitja í stjórn og eru þeir tilnefndir af Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppi, Múlaþingi og Vopnafjarðarkaupstað.
Stefán Bogi er lögfræðingur að mennt og er búsettur á Egilsstöðum. Hann lauk kandídatsprófi í lögfræði haustið 2006, var í skiptinámi í réttarsögu, réttarheimspeki og þjóðarétti við Uppsala Universitet árið 2005, lauk námskeiði um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður árið 2007 hjá Lögmannafélagi Íslands og lauk námi til kennsluréttinda í framhaldsskóla frá Háskólanum á Akureyri árið 2011. Hann hóf BA nám í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 2020.
Stefán Bogi er með fjölbreytta starfsreynslu. Hann hefur meðal annars verið framkvæmdastjóri Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun, markaðsstjóri hjá Útgáfufélagi Austurlands/Austurfrétt og leiðsögumaður.
Stefán Bogi hefur unnið að menningartengdum verkefnum, gefið út ljóðabækur, verið virkur í stjórnmálum og félagsstörfum og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi. Hann er fulltrúi í skólanefnd Menntaskólans á Egilsstöðum og situr í sveitarstjórn Múlaþings.
Bára Stefánsdóttir, fráfarandi forstöðumaður, lýkur störfum 30. júní en mun aðstoða Stefán við að komst inn í starfið fyrir þann tíma. Stjórn og starfsfólk Héraðsskjalasafns Austfirðinga óskar Stefáni Boga velfarnaðar í nýja starfinu sem hann tekur formlega við þann 1. júlí 2021.