Skip to main content

admin

Fjölsótt málstofa um heimagrafreiti

Þriðjudaginn 19. október stóðu Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Þjóðkirkjusöfnuðir á Héraði fyrir málstofu um heimagrafreiti.

Fyrirlesari var dr. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hjalti hefur rannsakað sögu heimagrafreita í þaula undanfarin misseri og ár og er um þessar mundir að birta niðurstöður sínar í nokkrum tímaritsgreinum. Tvær greinar hafa birst í Ritröð Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Jarðsett verður í heimagrafreit“. Sú fyrri í 51. hefti frá 2020 og hin síðari í 52. hefti frá 2021. Einnig birtist grein í 2. tbl. tímaritsins Sögu árið 2020 og nefnist hún Átökin um útförina. Skiptar skoðanir um heimagrafreiti á Íslandi á nítjándu og tuttugustu öld. Allar greinarnar eru aðgengilegar í bókasafni Héraðsskjalasafns Austfirðinga, en einnig er hægt að nálgast greinarnar úr Ritröð Guðfræðistofnunar á vefnum. Þá hefur Hjalti boðað að fleiri greinar verði birtar í ritröðinni og einnig ein í Árbók Fornleifafélagsins.

Í fyrirlestri sínum fór Hjalti yfir tilurð heimagrafreita eins og hann skilgreinir þá. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er fyrsti heimagrafreiturinn stofnaður hér á landi 1878, á Fiskilæk í Borgarfirði, og fór síðan hægt fjölgandi eftir það. Leyfi fyrir fyrstu grafreitum af þessu tagi á Austurlandi voru veitt á tíunda áratug 19. aldar og fljótlega virðist sem að vinsældir siðarins hafi aukist, einkum á Fljótsdalshéraði, og er áberandi hversu margir þeir urðu á endanum hér í fjórðungnum. Alls telur Hjalti heimagrafreiti á landinu vera um 170 talsins og þar af eru rúmlega 50 á Austurlandi, langflestir á Héraði. Þessi fjöldi grafreita á landinu vekur athygli, enda er þetta svipaður fjöldi og finna má í Noregi, þrátt fyrir allt að tuttuguogfimmfaldan fólksfjöldamun. Eins vekur athygli fjöldi reita á Héraði en á því virðist ekki vera einhlít skýring. Þó var í fyrirlestrinum og umræðum eftir hann farið yfir óvenjulegan fjölda heimagrafreita í Fellum, en þar eru þeir 15 talsins og eru hvergi fleiri í einum hreppi hérlendis. Einn af málstofugestum, Jón Sigfússon frá Krossi í Fellum, sagði frá því hvernig vatnsstaða í nýjum kirkjugarði á Ási hefði leitt til þess að fólki hafi hugnast illa að láta grafa þar og heimagrafreitum fjölgað mikið í kjölfarið.

Hjalti fór einnig yfir þau skilyrði sem sett voru fyrir stofnsetningu heimagrafreits, meðal annars að þar skyldi gera steinsteypt grindverk og hlið úr járni, og einnig hverjir skyldu hvíla í reitunum. Þessum skilyrðum virðist þó ekki hafa verið hátíðlega fylgt eftir í öllum tilfellum. Þá fór hann yfir afstöðu kirkjuyfirvalda, einkum biskupa, sem voru jafnan fremur andsnúnir þessari þróun. Það fór síðan svo á endanum að bannað var með lögum árið 1963 að stofnsetja nýja heimagrafreiti. Af þeim sökum vekur það óneitanlega athygli að yngsti reiturinn sem vitað er um er gerður árið 1982, að Egilsá í Skagafirði. Það sýnir óneitanlega að eitt er að setja reglur og lög, en annað að framfylgja þeim.

Fram kom á málstofunni að sá siður að jarðsetja í heimagrafreit er lifandi hér á svæðinu og alltaf nokkuð um slíkar athafnir. Þó ýmis dæmi finnist um að viðhaldi og umhirðu sé ábótavant eru sömuleiðis mörg dæmi um heimagrafreiti sem mikil prýði er að og einn málstofugesta lýsti því sérstaklega yfir hversu vænt henni þætti um að hafa ættingja jarðsetta í námunda við sig.
Margir lýstu ánægju sinni með framtakið, að halda málstofu af þessu tagi og aðsókn var framar öllum vonum, en um 50 gestir sóttu málstofuna.

Enginn aðgangseyrir var settur upp en gefinn kostur á að veita frjáls framlög og söfnuðust hátt í 30.000 krónur þannig, sem gengur upp í kostnað við auglýsingar og ferðir, en rétt er að geta þess að Hjalti tók enga greiðslu fyrir erindið en leit svo á að það félli undir starfsskyldur hans sem prófessor við Háskóla Íslands að flytja fyrirlestra af þessu tagi. Eru aðstandendur málstofunnar honum afar þakklát fyrir samstarfið.

Erindi Hjalta og umræður í kjölfarið voru tekin upp og stefnir Héraðsskjalasafnið að birtingu erindisins á vefnum á næstu vikum.

Málstofa 2

Málstofa 2

Málstofa 4