Skip to main content

admin

Haustráðstefna héraðsskjalavarða

Árleg haustráðstefna Félags héraðsskjalavarða á Íslandi var haldin í liðinni viku og fór hún fram í Neskaupstað og á Egilsstöðum.

 Alls tóku 25 manns, starfsfólk héraðsskjalasafna víða að af landinu, þátt í ráðstefnunni auk nokkurra fyrirlesara og leiðbeinenda. Ráðstefnan sjálf fór fram í Safnahúsinu í Neskaupstað dagana 30. september og 1. október, en auk fyrirlestra bauð sveitarfélagið Fjarðabyggð til móttöku og síðan var snæddur hátíðarkvöldverður á Hildibrand hóteli.

Að loknum fyrirlestrum og umræðum síðari daginn skoðuðu gestir Skjala- og myndasafn Norðfjarðar áður en haldið var til Egilsstaða þar sem Safnahúsið var sótt heim og hús tekið á Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Þar snæddu gestir léttan hádegisverð í boði sveitarfélagsins Múlaþings.

Auk ráðstefnunnar sjálfrar fór fram aðalfundur Félags héraðsskjalavarða á Íslandi. Kosið var í nýja stjórn félagsins en hana skipa, Björk Hólm Þorsteinsdóttir Héraðsskjalasafni Svarfdæla, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir Skjalasafninu á Ísafirði, Lára Ágústa Ólafsdóttir Héraðsskjalasafninu á Akureyri, Sólborg Una Pálsdóttir Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og Stefán Bogi Sveinsson Héraðsskjalasafni Austfirðinga.

Ráðstefnan var skipulögð í samvinnu Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Skjala- og myndasafns Norðfjarðar. Upphaflega átti ráðstefnan að fara fram haustið 2020 en var frestað um ár vegna Covid-19 faraldursins.