Skip to main content

admin

Gestafjöldi 2011 og framhald ljósmyndaverkefnis

Samkvæmt venju var á árinu 2011 haldið saman upplýsingum um fjölda gesta sem koma í Héraðsskjalasafnið. Í þessari frétt verður gerð stuttlega grein fyrir gestafjöldanum en einnig greint frá framhaldi ljósmyndaverkefnsins sem hófst í ársbyrjun 2011.

Alls komu 1415 gestir í safnið á árinu 2011. Þess ber þó að geta að gestir sem mæta á viðburði á vegum safnsins (bæði innan þess og utan) eru ekki inni í þessari tölu. Fjöldi þeir var um 350 og vigta Bókavakan og sýningarferðir safnsins þyngst í þeirri tölu. Safnið afgreiddi 400 erindi sem bárust með síma eða tölvupósti á árinu. Skjala og myndbeiðnir voru alls 372 talsins.

Undir lok síðasta árs ákvað fjárlaganefnd Alþingis að veita fjármunum til áframhalds á ljósmyndaverkefni því sem hófst í byrjun árs 2011. Líkt og í fyrra leggur Fljótsdalshérað einnig fjármuni til verkefnisins en tvö stöðugildi verða til vegna þess. Þeir starfsmenn sem störfuðu að verkefninu í fyrra hafa verið endurráðnir og er verkefnið komið af stað á ný. Það er sannarlega gleðiefni að þetta verkefni haldi áfram. Mikill árangur varð af því á síðasta ári en þá voru skannaðar um 32 þúsund myndir og um 17 þúsund myndir voru fullskráðar.