Skip to main content

admin

Fróðlegir fyrirlestrar í Safnahúsinu

Undanfarnar vikur hafa verið fluttir tveir fróðlegir fyrirlestrar í samstarfi við Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Gestir kunnu vel að meta þau fræði sem þar var farið yfir.

Ógnvaldar

Þann 8. maí fluttu Dr. William R. Short og Reynir A. Óskarsson, félagar í Hurstwic hópnum, fyrirlestur um rannsóknir hópsins á bardagaaðferðum víkinga, en óhætt er að segja að þær hafi leitt til athyglisverðra og óvæntra niðurstaðna. Notast hópurinn mikið við það sem nefnist tilraunafornleifafræði og leitast við að endurskapa aðstæður og atvik sem til dæmis er lýst í fornsögum, til að leggja mat á hugsanlegt sannleiksgildi þeirra og að skilja betur það sem lýst er. Um efnið hafa William og Reynir einnig fjallað í bók sinni, Men of Terror: A Comprehensive Analysis of Viking Combat, sem út kom í fyrra.

Þeir hafa haft sérstakan áhuga á spjótsoddi sem finna má í Minjasafni Austurlands og fannst á fjórða áratug 20. aldar nærri Glúmsstöðum í Fljótsdal. Telja þeir hugsanlega um að ræða odd af svonefndu snærisspjóti, en frekari rannsókna er þörf áður en hægt er að slá nokkru föstu um það.

Fyrirlesturinn var samstarfsverkefni Hurstwic hópsins, Héraðsskjalasafns Austfirðinga og Minjasafns Austurlands.

Fámennt en fjölþjóðlegt: Um félagshreyfingar og samfélagslegt umrót á Austurlandi um aldamótin 1900

Þann 2. júní sótti Hrafnkell Lárusson heim gamlar slóðir, en hann var forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga árin 2008-2013. Flutti hann fyrirlestur byggðan á doktorsritgerð sinni, sem hann varði við Háskóla Íslands í fyrra. Í þeirri rannsókn beindi hann meðal annars sjónum að ýmsum þáttum austfirsks samfélags um aldamótin 1900 og fjallaði hann í fyrirlestrinum um vöxt félagshreyfinga á svæðinu fyrir og upp úr aldamótunum.

Að fyrirlestri loknum var boðið upp á kaffi og í kjölfarið svaraði fyrirlesari spurningum gesta um efnið. Fram kom að stefnt er að því að doktorsritgerðin verði gefin út, lítillega stytt og endurskoðuð, af Sögufélaginu á næsta ári. Fyrirlestur Hrafnkels var tekinn upp og mun verða birtur á Youtube-síðu safnsins síðar í sumar.