Skip to main content

admin

Austfirsk menning í ljósmyndum

Héraðsskjalasafnið heldur sýningar á fjórum stöðum á Dögum myrkurs. Við úthlutun styrkja Menningarráðs Austurlands fyrr á þessu ári fékk Héraðsskjalasafn Austfirðinga styrk til verkefnisins Austfirsk menning í ljósmyndum. Markmið verkefnisins er að fara með ljósmyndasýningar til fjögurra byggðarlaga á starfssvæði Héraðsskjalasafnsins (utan Fljótsdalshéraðs) en starfssvæðið nær til allra sveitarfélaga í Múlasýslum.

Þeir staðir farið verðu með sýningar til eru Djúpivogur, Seyðisfjörður, Fáskrúðsfjörður og Vopnafjörður. Sýningum á þremur af þessum fjórum stöðum hefur verið fundinn tími í dagskrá Daga myrkurs. Fyrsta sýningin af verður í húsnæði grunnskólans á Fáskrúðsfirði mánudagskvöldið 7. nóvember. Þriðjudagskvöldið 8. nóvember verður sýning í bíósal Herðubreiðar á Seyðisfirði og miðvikudagskvöldið 9. nóvember verður sýnt í Helgafelli á Djúpavogi. Fjórða og síðasta sýningin í þessari röð verður í Kaupvangi á Vopnafirði miðvikudaginn 16. nóvember nk.

Einn megin tilgangur sýninganna er að gera Héraðsskjalasafn Austfirðinga og starfsemi þess sýnilegra í byggðarlögum utan nærsvæðis safnsins og styrkja tengsl þess við fólk í viðkomandi byggðalögum. Hver sýning verður sérsniðin að hverju byggðalagi, en aðalefnið eru ljósmyndir (í powerpoint-fromi sem varpað verður á tjald) frá staðnum og af fólki þaðan. Auk þess verður á dagskránni stutt kynning á starfsemi Héraðsskjalasafnsins og Ljósmyndasafns Austurlands sem og sýning myndskeiðum úr safni Austfirska sjónvarpsfélagsins og útibús Stöðvar 2 á Austurlandi. Þau myndskeið eru frá 9. og 10. áratug síðustu aldar og gefa áhugavert þversnið af atvinnu- og mannlífi á Austurlandi á þeim tíma. Á síðasta ári var þetta myndefni fært yfir á stafrænt form og er því orðið aðgengilegt gestum safnsins. Myndefnið sem sýnt verður – bæði ljósmyndir og lifandi myndir – kemur úr safnkosti Héraðsskjalasafnsins og Ljósmyndasafns Austurlands. Gert er ráð fyrir að hver sýning verði u.þ.b. ein klukkustund að lengd.

Héraðsskjalasafnið lætur ekki nægja að vera með þrjár sýningar á Dögum myrkurs heldur verður sú fjórða fimmtudagskvöldið 10. nóvember. Sú sýning nefnist Þekkir þú myndina? og verður hún í félagsmiðstöðinni Hlymsdölum á Egilsstöðum. Á þeirri sýningu gefur að líta ljósmyndir sem hafa á þessu ári verið færðar á stafrænt form í yfirstandandi skönnunarverkefni á vegum Héraðsskjalasafnsins. Þær eru frá ýmsum tímum en eiga það sammerkt að sýna óþekkt fólk og/eða staði. Gestum mun gefast færi á að koma á framfæri upplýsingum um myndirnar, en þeim verður varpað upp á tjald og mun starfsfólk Héraðsskjalasafnsins hafa umsjón með sýningunni og skrá niður upplýsingar um myndir.