Þekkir þú myndina?
Óþekktar myndir í Hlymsdölum fimmtudagskvöldið 10. nóvember. Fólk er hvatt til að mæta á þessa skemmtilegu sýningu og leggja sitt af mörkum til upplýsinga um myndirnar sem sýndar verða.
Héraðsskjalasafnið lætur ekki nægja að vera með þrjár sýningar á Dögum myrkurs heldur verður sú fjórða fimmtudagskvöldið 10. nóvember. Sú sýning nefnist Þekkir þú myndina? og verður hún í félagsmiðstöðinni Hlymsdölum á Egilsstöðum. Á þeirri sýningu gefur að líta ljósmyndir sem hafa á þessu ári verið færðar á stafrænt form í yfirstandandi skönnunarverkefni á vegum Héraðsskjalasafnsins. Þær eru frá ýmsum tímum en eiga það sammerkt að sýna óþekkt fólk og/eða staði. Gestum mun gefast færi á að koma á framfæri upplýsingum um myndirnar, en þeim verður varpað upp á tjald og mun starfsfólk Héraðsskjalasafnsins hafa umsjón með sýningunni og skrá niður upplýsingar um myndir.