Skip to main content

admin

Góð aðsókn að farandsýningum safnsins

Starfsfólk Héraðsskjalasafnsins lagði land undir fót á Dögum myrkurs (og svo aftur í síðustu viku) og heimsótti fjóra staði á Austurlandi. Tilefnið var að sýningin Austfirsk menning í ljósmyndum sem Menningarráð Austurlands styrkti við síðustu úthlutun.

Dagana 7.-9. nóvember heimsóttu Arndís og Hrafnkell þrjá staði, en þeir voru Fáskrúðsfjörður, Seyisfjörður og Djúpivogur, og voru þær sýningar hluti af dagskrá Daga myrkurs. Síðastliðinn miðvikudag (16. nóvember) var svo haldið til Vopnafjarðar í sömu erindagjörðum.

Efni sýninganna var þríþætt, en auk ljósmyndanna (sem voru í aðalhlutverki) var starfsemi Héraðsskjalasafnsins kynnt og sýnd voru myndskeið úr safni Austfirska sjónvarpsfélagsins sem varðveitt er í Héraðsskjalasafninu. Þó uppbygging sýninganna væri sú sama á öllum stöðum var hver og ein sýning sérsniðin að hverjum sýningastað og var efnið að mestu eða öllu leyti frá viðkomandi stað.

Sýningarnar voru vel sóttar en um 200 manns mættu á þessar fjórar sýningar og dreifðist gestfjöldinn nokkuð jafnt, en hann var á bilinu 40-55 manns. Viðtökur gesta voru afar góðar og var það einkar ánægjulegt fyrir starfsfólks safnsins að fá svo jákvæð viðbrögð. Heimamenn á hverjum stað gerðu einnig sitt til að gera sýningarnar að veruleika en sveitarfélögin voru safninu innan handar varðandi húsnæði fyrir sýningarnar. Á öllum stöðunum söfnuðust upplýsingar varðandi einstakar myndir í sýningunum, en af slíkum upplýsingum er mikill fengur til að bæta skráningu mynda.

Á vefsíðu Vopnafjarðarhrepps má finna umfjöllun um sýninguna í Kaupvangi og myndir sem teknar voru þar (slóðin er:http://www.vopnafjardarhreppur.is/Frettir/nanar/6760/austfirsk-menning-i-ljosmyndum)

Ekki má gleyma að nefna að lokum sýninguna Þekkir þú myndina? sem haldin var í Hlymsdölum á Egilsstöðum þann 10. nóvember sl. Á þá sýningu mættu milli 40 og 50 manns. Markmiðið með þeirri sýningu var að afla upplýsinga um lítt þekktar eða óþekktar myndir í vörslu safnsins. Söfnuðust heilmiklar upplýsingar um myndirnar og voru viðstaddir, bæði starfsfólk safnsins og gestir, ánægðir með hvernig til tókst.