Skip to main content

admin

Bráðmerkilegt bréfasafn og fleiri gögn

Þann 4. september fékk Héraðsskjalasafn Austurlands til varðveislu einkaskjöl Sigurðar Gunnarssonar, sem var prestur á Hallormsstað og Desjarmýri.

Það var Hjörleifur Guttormsson sem afhenti safnið, flokkað og frágengið, en hann lauk fyrir skemmstu ritun ævisögu Sigurðar. Í afhendingunni er meðal annars að finna í handritum drög að sjálfsævisögu Sigurðar, drög að greinum og þýðingum, dagbækur og minnisbækur auk bréfasafns Sigurðar, sem er allmikið að vöxtum. Þar er að finna bréfaskipti hans við ýmislegt málsmetandi fólk sem spanna árabilið 1847 til 1878.

Hjörleifur hafði frumkvæði að því að bjóða Héraðsskjalasafni Austfirðinga að fá þetta skjalasafn til varðveislu og í var honum falið að ganga frá safninu til varðveislu og úthlutað safnmörkum fyrir það. Allar vísanir til þessara heimilda í nýútkominni ævisögu eru því réttar og hægt að ganga að heimildinum vísum hér í safninu.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga kann Hjörleifi og hans aðstoðarfólki við verkefnið bestu þakkir fyrir samstarfið og fyrir að fela okkur varðveislu þessara merku heimilda.