Skip to main content

admin

Lykilrit um austfirska sögu

Hjörleifur Guttormsson hefur nú nýverið sent frá sér tveggja binda verk um ævi og störf séra Sigurðar Gunnarssonar sem var prestur á Hallormsstað og á Desjarmýri.

Sigurður, sem var langafi höfundarins, lagði gjörva hönd á margt um daganna, var sálusorgari, ferðagarpur, smiður og húsameistari, náttúrufræðingur, rithöfundur, alþingismaður og læknir og er þá ekki allt talið.

Sem þingmaður og þjóðfundarfulltrúi stóð hann í bréfaskiptum við marga af helstu leikendum Íslandssögunnar á síðari hluta 19. aldar og kom að mörgum mikilvægum málefnum hér austanlands og víðar.

Hjörleifur Guttormsson hefur sem fyrr segir tekið saman þetta rit um ævi og verk langafa síns, en þá sögu segir raunar Sigurður sjálfur að verulegu leyti, í bréfum, greinum og ritsmíðum. Margt það efni hefur aldrei birst áður.

Í tengslum við ritun bókarinnar var bréfasafn Sigurðar skráð og til stendur að það verði afhent Héraðsskjalasafni Austfirðinga til varðveislu. Er það ómetanlegur fjársjóður heimild og getur ritið um ævi Sigurðar þjónað sem lykill að honum fyrir öll þau sem áhuga hafa á sögu Austurlands og Íslandssögunni á þessu tímabili.

Við hvetjum sem flest þeirra sem áhuga hafa til að festa kaup á ritinu, sem fæst í öllum helstu bókaverslunum. Á Héraði má nálgast bækurnar í Bókakaffi, Hlöðum í Fellabæ. Þá er hægt að nálgast bækurnar til láns í bókasafni Héraðsskjalasafns Austfirðinga og víðar.