Skip to main content

admin

Þjóðskjalavörður í heimsókn

Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður, heimsótti í dag Héraðsskjalasafn Austfirðinga og fundaði með héraðsskjalaverði.

Samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn er það í verkahring Þjóðskjalasafns að veita leyfi til reksturs héraðsskjalasafns og jafnframt ber Þjóðskjalasafni að ganga úr skugga um að starfsemi þeirra sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Þar fyrir utan er mikilvægt héraðsskjalasöfn og Þjóðskjalasafnið stilli saman strengi í sínum sameiginlegu og samkynja verkefnum og mikilvægt að viðhalda stöðugu samtali milli stofnana.

Heimsókn Hrefnu í dag var liður í því og bar ýmislegt á góma. Stefán Bogi Sveinsson héraðsskjalavörður fór yfir starfsemi safnsins og stöðu ýmissa verkefna, eftirlit með skjalamyndurum, gjaldskrá, rafræna skjalavörslu og fleira.

Að loknum fundi var tækifærið nýtt og smellt af mynd með föstu starfsfólki safnsins. Næstu daga mun þjóðskjalavörður síðan sækja ráðstefnu um kvenna- og kynjasögu sem haldinn er á Seyðisfirði og Egilsstöðum.

Mynd: F.v. Ingibjörg Sveinsdóttir Kröyer safnvörður, Eysteinn Ari Bragason skjalavörður, Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og Stefán Bogi Sveinsson héraðsskjalavörður.