Nýr skjalavörður ráðinn til safnsins
Á dögunum var auglýst laust til umsóknar starf skjalavarðar á Héraðsskjalasafni Austfirðinga.
Alls bárust sjö umsóknir um starfið og því úr vöndu að ráða þegar kom að því að velja úr þeim fríða hópi sem sóttist eftir starfinu.
Niðurstaðan varð sú að Eysteinn Ari Bragason var ráðinn til starfans og mun hann taka til starfa í byrjun febrúar.
Eysteinn Ari lauk MA-gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands árið 2020 og þar áður BA-gráðu í sama fagi árið 2016. Undanfarin misseri hefur hann meðal annars sinnt kennslu og aðstoð við kennslu við Háskóla Íslands auk þess að starfa sem rannsakandi við öndvegisverkefni sem nefnist Symbiosis: Samlífi manna og örvera í daglega lífinu.
Í dag leit hann við og heilsaði upp á verðandi samstarfsfólk á safninu. Af því tilefni var meðfylgjandi mynd tekin, en svo vel vildi til að Arndís Þorvaldsdóttir leit við á safninu og því var hægt að mynda saman þrjár kynslóðir skjalavarða, ef svo mætti segja. Er óhætt að segja að þeir hafi farið hækkandi með árunum, skjalaverðirnir.
Héraðsskjalasafnið býður Eystein Ara velkominn til starfa.
Mynd: Þrjár kynslóðir skjalavarða. F.h. Arndís Þorvaldsdóttir 1997-2016, Magnhildur Björnsdóttir 2011-2024 og Eysteinn Ari Bragason frá 2024.