Skip to main content

admin

Styrkur úr Uppbyggingarsjóði Austurlands

Héraðsskjalasafn Austfirðinga hlaut á dögunum styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til að útbúa sýningu á sumri komanda.

Alls var úthlutað tæplega 65 milljónum úr sjóðnum, til menningar- og nýsköpunarverkefna af ýmsu tagi. Héraðsskjalasafnið hlaut 500.000 króna styrk til að vinna að gerð sýningar um ævi og störf Margrétar Sigfúsdóttur frá Skjögrastöðum.

Í safninu er að finna ýmis handrit frá Margréti auk merkilegra handskrifaðra blaða sem hún ritstýrði og gefin voru út af Kvenfélaginu Einingunni í Fljótsdal. Margrét bjó lengst af í Fljótsdal og starfaði þar sem heimiliskennari, en hún var einnig mikilvirkt skáld og tók virkan þátt í margvíslegu félagsstarfi.

Sýning verður sett upp samhliða öðrum sýningum á Minjasafni Austurlands og Tækniminjasafni Austurlands þar sem kvennasögu verður gert hátt undir höfði. Um svipað leyti og sýningarnar munu opna verður haldin ráðstefna um kvenna- og kynjasögu á Seyðisfirði og Egilsstöðum.

Það var Magnhildur Björnsdóttir, skjalavörður á Héraðsskjalasafni Austfirðinga, sem veitti styrknum viðtöku fyrir hönd safnsins.

Mynd: Austurfrétt/Gunnar