Skip to main content

admin

Horft í linsur Kadettsins og Konna

Að þessu sinni eiga tveir áhugaljósmyndarar, þeir Guðmundur R. Jóhannsson og Hákon Aðalsteinsson, myndirnar á ljósmyndasýningunni sem í dag birtist hér á heimasíðu Héraðsskjalasafnsins. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að skönnun á filmum og myndum í varðveislu Ljósmyndasafnsins og eru söfn þeirra Guðmundar og Hákonar á meðal þeirra sem búið er að skanna og skrá. Skráningu má þó endalaust bæta og eru frekari upplýsingar vel þegnar.

Guðmundur var starfsmaður Kaupfélags Héraðsbúa á árunum 1960-1963 og gekk þá undir nafninu Guðmundur Kadett. Hann tók á þessu tímabili mikinn fjölda mynda. Sýna margar þeirra samstarfsmenn og félaga í leik og starfi en aðrar eru teknar á ferðalögum um Austurland. Þar af leiðir að myndir sem tengjast Kaupfélaginu og starfsemi þess eru áberandi sem er við hæfi þar sem nú er opin í Sláturhúsinu sýning á vegum Minjasafns Austurlands sem fjallar um sögu og starf Kaupfélags Héraðsbúa.
Myndir Hákonar eru teknar á árabilinu 1965 -1975. Hákon var um skeið fréttaritari Morgunblaðsins á Héraði og fangaði því mörg söguleg augnablik á filmu.