Skip to main content

admin

Hrunbækur og yfirlitsrit

Eins og títt er með lifandi bókasöfn þá eykst jafnt og þétt bóka- og tímaritakostur bókasafns Héraðsskjalasafnsins. Síðustu ár hefur þeirri venju verið fylgt að setja hér inn á síðuna á hálfs árs fresti lista yfir bækur sem bæst hafa við safnkostinn undangengið hálft ár. Aðaláherslur safnsins við innkaup eru á austfirskt efni og fræðilegt. Er hér vert að gera stuttlega grein fyrir tveimur "bókaflokkum" sem bæst hafa við safnið nýlega.

Í kjölfar íslenska efnahagshrunsins haustið 2008 hafa ýmsir reynt að skýra út fyrir sjálfum sér og öðrum hvað olli því að svona fór. Í því skyni hafa verið skrifaðar bækur um að tildrög hrunsins og afleiðingar þess. Frá hruni hefur verið leitast við að kaupa til safnsins þær bækur sem komið hafa út um þetta efni og eru þær vel flestar til í safninu. Er þar fyrst að telja að í safninu er að finna skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis sem kom út fyrir rétt rúmu ári síðan. En meðal annarra bóka um þetta efni sem til eru í safninu má nefna Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson,Umsátrið eftir Styrmi Gunnarsson, Ævintýraeyjan eftir Ármann Þorvaldsson, Why Iceland? eftir Ásgeir Jónsson og Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson. Fyrir þá sem langar að fá innsýn í nútíma hagfræði má svo benda á bók nóbelsverðlaunahafans Paul Krugman sem nefndist Aftur til kreppuhagfræði - Krísan 2008. 

Annarskonar lesefni er að finna í ritröðinni Very short Introductions sem Oxford University Press gefur út, en nokkrar bækur úr þeirri röð eru til í safninu. Þessar bækur eru á ensku og í smáu broti. Hver þeirra fjallar á skýran og aðgengilegan hátt um ákveðið efni. Formið er fremur knappt enda er tilgangur þessarar ritraðar að veita innsýn í efnið til fjallað er um og drepa á helstu atriðum. Þær bækur í þessari ritröð sem til eru safninu fjalla um eftirtalin efni: Sögu lífsins, Heimspeki, Trúleysi, Tilvistarstefnu, Vísindi og trú, Kristni, Islam, Kristna siðfræði, Kommúnisma, Kelta, Sósíalisma, Þjóðernishyggju, Fasisma, Marx, Mannréttindi, Póst-strúktúralisma, Póstmódernisma, Hnattræna hlýnun og Kynferði.  Líklegt er að fleiri bækur eigi eftir að bætast við í þessari ritröð.