Örnefnaskrár í héraðsskjalasafninu
Í Héraðsskjalasafni Austfirðinga er varðveittur allmikil fjöldi af örnefnaskrám frá Austurlandi. Mér telst til að örnefnaskrár séu til frá um það bil 410 bújörðum og landssvæðum. Yfir örnefni allmargra jarða eru til tvær eða fleiri örnefnaskrár, oft eftir mismunandi höfunda.
Með landssvæðum er ég að vísa til nokkurra örnefnaskráa sem til eru yfir heiðalönd og afréttir. Þar má t.d. nefna Vesturöræfi, Suðurfell og Villingadal og Múlann og Rana, sem munu tilheyra Fljótsdalshreppi, svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru til grenjaskrár frá allmörgum hreppum og skrár yfir eyðibýli. Þá er til sérstök sandaskrá yfir nöfn á söndum við Héraðsflóann. Ýmsir bæir og kirkjur áttu rekaítök á Héraðssöndum, sem þannig var skipt niður í svæði með ákveðnum nöfnum.
Nokkuð misjafnt er hve mikið er til af örnefnaskrám úr einstökum hreppum og er þá miðað við hreppana eins og þeir voru áður en þeir fóru að sameinast. Segja má að örnefnaskrár séu til hér í safninu frá öllum eða nánast öllum bújörðum í Vopnafjarðarhreppi og á Fljótsdalshéraði, Borgarfirði, Loðmundarfirði, Seyðisfirði, Mjóafirði, Norðfirði og Eskifirði. Úr hreppunum frá Helgustaðahreppi og suður að Geithellna- og Búlandshreppum eru aðeins til örnefnaskrár á stangli eða frá einni skrá og upp í níu skrár úr einum hrepp. Þó er Beruneshreppur (sem nú er innan Djúpavogshrepps) undanskilinn, en þaðan eru til nítján örnefnaskrár hér í safninu. Auk þessa eru til fjórar örnefnaskrár úr Bæjahreppi og ein skrá úr Nesjahreppi, sem báðir eru í Austur-Skaftafellssýslu. Þar að auki eru hér til ýmis bréf og greinar er tengjast örnefnum og örnefnasöfnun og nokkur örnefnakort yfir lönd einnar eða fleiri bújarða.
Örnefnaskrárnar eru nær allar komnar frá Örnefnastofnun annað hvort beint eða vegna þess að áhugamenn hafa fengið afrit af einstökum skrám hjá Örnefnastofnun og síðan leyft safninu að taka af þeim ljósrit. Einnig eru dæmi um að einstaklingar hafi gefið safninu örnefnaskár sem þeir hafa sjálfir gert, jafnvel yfir heilar sveitir.
Nokkuð er um að safngestir skoði hér örnefnaskrár og fái ljósrit af einstökum örnefnaskrám ekki síst til að fá upplýsingar um landamerki. Það hefur m.a. tengst þjóðlendukröfum ríkisins, þar sem oft hafa verið gerðar kröfur um að stórir hlutar bújarða yrðu lagðir undir þjóðlendur. Einnig leita sumir upplýsinga í örnefnaskrám vegna landamerkjadeilna ábúenda nágrannajarða. Varðandi landamerki jarða má annars geta þess, að hér eru til sérstakar landamerkjabækur yfir Norður- og Suður-Múlasýslu, en þó vantar landamerkjaskrár fyrir margar jarðir.
Örnefnaskrár eru líka notaðar þegar verið er að vinna við skráningu fornminja á ákveðnum landssvæðum eða í sambandi við friðlýsingar náttúruvætta eða fornminja. Loks má nefna að þeir sem eru að kynna sér forna fjallvegi eða áhugaverðar gönguleiðir hafa oft mikinn áhuga á örnefnum og kynna sér því örnefnaskrár.
Örnefnaskrárnar eru öllum opnar til skoðunar í safninu.
Guðgeir Ingvarsson tók saman.
- Ritað .