Góð aðsókn á fyrri hluta ársins
Um síðustu áramót var tekið til við að skrá gestafjölda í héraðsskjalasafninu af meiri nákvæmi en gert hafði verið. Áður var látið nægja að gestabók lægi frammi og starfsfólk hvetti gesti til að rita nöfn sín í hana. Í erli dagsins vill þó gleymast að minna gestina á gestabókina og því var öllum sem til þekktu ljóst að fjöldi þeirra sem rituðu nöfn sín þar var aðeins hluti af heildarfjölda gesta safnsins. Því var það ráð tekið að starfsfólk safnsins skráði gestafjölda hvers dags við lok hans, en eftir sem áður eru gestir líka hvattir til að skrá nöfn sín í gestabókina.
Nú þegar næstum hálft ár er liðið síðan núverandi form gestskráningar var tekið upp blasir við hversu gríðarlegur munur er á skráningum í gestabók og raunverulegum fjölda gesta í skjalasafninu. Samkvæmt gestabókinni hafa 129 gestir komið í safnið frá áramótum. Sú tala er þó fjarri hinu rétta því í raun eru gestir safnsins á þessum tíma (frá 1.1. til og með 24.6. 2008) alls 804. Þarna er mikill og augljós munur og sést af honum að aðeins ríflega sjötti hver gestur ritar nafn sitt í gestabókina.
Rétt er að taka fram að þeir sem koma í safnið í persónulegum erindagjörðum við einstaka starfsmenn eru ekki taldir með í gestatalningunni heldur aðeins þeir sem eiga erindi við héraðsskjalasafnið og/eða ljósmyndasafnið.
Í þeirri skráningu sem við framkvæmum er ekki gerður greinarmunur á gestum eftir erindum þeirra, en erindi fólks við safnið eru æði misjöfn. Sumir hafa lítil og afmörkuð erindi og stoppa stutt á meðan aðrir hafa í fleiri horn að líta inni í safninu og verja því heilu og hálfu dögunum hér. Nokkuð stór hluti gesta safnsins eru skólafólk sem kemur hingað ýmist í hópum til að skoða safnið eða eitt og sér til að vinna verkefni eða afla sér upplýsinga og heimilda. Þennan hóp teljum við að stækka megi enn frekar frá því sem nú er. Fræðimenn eru einnig reglulegir gestir í safninu, komnir til að viða að sér heimildum fyrir yfirstandandi rannsóknir. Enn aðrir koma svo til að afla sér upplýsinga vegna réttinda/hagsmuna eða vegna áhugamála, t.d. gamalla ljósmynda, örnefna eða ættfræði. Ekki má svo gleyma þeim sem koma í safnið til að afhenda því gögn til varðveislu, heimsóknir þeirra eru safninu afar mikilvægar. Áfram væri hægt að halda að telja upp margvísleg erindi fólks í safnið.
Frá áramótum hafa gestir í héraðsskjalasafninu verið yfir hundrað talsins í hverjum mánuði. Mest var aðsóknin fyrstu tvo mánuði ársins en í janúar og febrúar komu alls 358 gestir í safnið, þar af 207 í febrúarmánuði. Meiri aðsókn fyrstu tvo mánuði ársins en hina síðari skýrist að mestu af tíðari heimsóknum skólafólks í upphafi árs. Páskar voru í mars með tilheyrandi frídögum sem leiddi til þess að safnið var þá opið færri daga en mánuðina á undan og kann það að skýra minni aðsókn þann mánuð.
Ekki er hægt, enn sem komið er, að draga neinn afgerandi lærdóm af þeim upplýsingum sem gestatalningin hefur aflað okkur á fyrri helmingi ársins. Gleggri mynd mun fást þegar árið verður gert upp. Þó er ljóst nú þegar að gestafjöldi í safninu er mun meiri en starfsfólk hafði gert sér grein fyrir, en þeir starfsmenn sem lengst hafa starfaði í safninu telja gestafjöldann það sem af er ári svipaðan og árin á undan. Það er óskandi að áhugi fólks á safninu eflist enn frekar enda er í Héraðsskjalasafni Austfirðinga að finna mikið magn upplýsinga um líf og starf fólks í þessum landshluta í gegnum tíðina. Undir hatti skjalasafnsins er svo Ljósmyndasafn Austurlands (sem er í eigu héraðsskjalasafnsins, Minjasafns Austurlands og Héraðsnefndar Múlasýslu) og skjalasafninu fylgir einnig voldugt bóka- og tímaritasafn. Allir þessir hlutar gera safnið að öflugri upplýsingaveitu sem hentar vel til rannsókna og upplýsingaöflunar, jafnt fyrir fræðimenn, skólafólk sem og áhugasaman almenning.
Hrafnkell Lárusson
- Ritað .