Skip to main content

admin

Um Guðnýju Þorsteinsdóttur frá Lindarbakka Borgarfirði eystra

Mikið er varðveitt af ljóðum og ýmis konar kveðskap í Héraðsskjalasafni Austfirðinga og þá ekki síst eftir austfirska höfunda eða höfunda sem tengjast Austurlandi á einn eða annan hátt. Hér í safninu er til dæmis varðveitt allmikið af ljóðum, hugleiðingum o. fl. eftir Guðnýju Þorsteinsdóttur, sem oft var kennd við Lindarbakka á Borgarfirði eystra, þar sem hún bjó ásamt fjölskyldu sinni frá 1916-1944. Guðgeir Ingvarsson hefur tekið saman eftirfarandi pistil um Guðnýju og efni henni tengt sem varðveitt er hér í héraðsskjalasafninu.  

Guðný Þorsteinsdóttir var fædd á Skjögrastöðum í Skógum 10. október 1892. Foreldarar hennar voru Rannveig Sigfúsdóttir og Þorsteinn Eiríksson. Guðný var næst elst átta systkina. Hún var send í fóstur átta ára að aldri til Þuríðar móðursystur sinnar sem þá var á Skriðuklaustri. Guðný var við nám í Kvennaskólanum í Reykjavík í tvo vetur. Árið 1916 fluttist hún til Borgarfjarðar eystri og giftist þar Haraldi Ingvarssyni sjómanni ættuðum frá Grímsey. Bjuggu þau í Bakkagerðisþorpi lengst af í húsi sem nefnt var Lindarbakki og enn er til. Þau eignuðust þrjá syni, Braga, Ingvar Björgvin og Gísla Þóri, en hann andaðist í bernsku. Árið 1944 fluttust þau til Vopnafjarðar, en síðustu árin dvaldist Guðný mest á Kristneshæli og lést þar í mars 1971.

Ýmsir ættingjar Guðnýjar eru þekkir fyrir kveðskap. Rannveig Sigfúsdóttir frá Skjögrastöðum, móðir hennar, og Margrét móðursystir hennar voru báðar þekktar fyrir ljóð sín og systir hennar Guðfinna Þorsteinsdóttir – Erla skáldkona – er þjóðkunn. Sama má segja um bróður hennar Guðmund Þorsteinsson, fræðimann og skáld frá Lundi. Sonur Guðfinnu var Þorsteinn Valdimarsson skáld.

Ekki virðist mikið af skáldskap Guðnýjar hafa komið fyrir sjónir almennings, þótt allmörg ljóð og stökur eftir hana hafi birst í bæklingi sem Félag Borgfirðinga eystra í Reykjavík gaf út 1979 og einnig í Afmælisriti sem Félag Borgfirðinga eystra í Reykjavík gaf út 1989. Bæði þessi rit eru væntanlega í fárra manna höndum og Afmælisritið virðist ekki vera skráð í söfnum öðrum en Bókasafni Héraðsbúa, Héraðsskjalasafni Austfirðinga og í Þjóðarbókhlöðu. Tvö kvæði eftir Guðnýju auk eins sendibréfs birtust í bókinni Huldumál – hugverk austfirskra kvenna sem kom út 2003 og þar er einnig stutt æviágrip Guðnýjar. Má ætla að fleiri hafi aðgang að því riti en þeim sem að framan eru nefnd.

Það sem til er hér í Héraðsskjalasafni Austfirðinga af ljóðum, stökum og öðru efni eftir Guðnýju Þorsteinsdóttur er að langstærstum hluta komið frá Unni Sólrúnu Bragadóttur, sonardóttur Guðnýjar, sem afhenti safninu þessi gögn sumarið 2004. Þar fylgja einnig með uppskriftir Guðnýjar á ljóðum eftir aðra höfunda, málshættir, ýmsar hugleiðingar hennar og fróðleikur um hjátrú og fleira.
Hér fylgir með yfirlitsskrá yfir það sem varðveitt er í Héraðsskjalasafni Austfirðinga af kveðskap hennar, uppskriftum og öðru efni sem henni tengist.

Skrá yfir efni úr fórum Guðnýjar Þorsteinsdóttur frá Lindarbakka Borgarfirði eystra sem Unnur Sólrún Bragadóttir skilaði til safnsins:
361-1 Uppskriftir á námsefni um hirðingu dýra og sjúkdóma.
361-1 Uppskriftir á eigin ljóðum og annarra, hugleiðingar, málsháttasafn.
361-2 Uppskriftir á ljóðum bæði eigin og annarra, hugleiðingar. Mikið af þessu er skrifað á Kristneshæli.
361-3 Hugleiðing um vetrarkomu og mörg kvæði, flest ort á Kristneshæli.
361-4 Slitrur úr bréfum til Guðnýjar frá börnum og barnabörnum. Eitt bréf til Braga Haraldssonar, sonar Guðnýjar, dags. 22.8. 1984. Bréfritari: Sigurður Óskar Pálsson Þetta bréf er komið frá Unni Sólrúnu Bragadóttur, sem skilaði því inn með gögnum ömmu sinnar.
361-5 Stílabók með uppskriftum á ljóðum, sumt líklega frumsamið.
361-6 Stílabók: Í tómstundum. Ljóð eftir Guðnýju.
361-7 Stílabók: Uppskriftir á ljóðum.
361-8 Stílabók: Í tómstundum. Ljóð eftir Guðnýju. Ekki sama bók og nr. 361-6.
361-9 Stílabók með uppskriftum á ljóðum. Líklega flest frumsamið.
361-10 Vasabók með gormi: Uppskriftir á ljóðum.
361-11 Vasabók: Uppskriftir á ljóðum.
361-12 Blokk með fróðleik um hjátrú og uppskrift á ljóði.
361-13 Harðspjaldastílabók allþykk: Kveðskapur eftir Guðnýju Þorsteinsdóttur og fleira.

Auk þess er í skjalasafninu.

212-31 Höfundur Guðný Þorsteinsdóttir frá Lindarbakka. Kvæði flutt í samsæti til heiðurs Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur og Halldóri Ásgrímssyni.
317-75 Guðný Þorsteinsdóttir: Ljósrit af handriti af ljóðasyrpu á lausum blöðum 1-47 + tvö blöð.  Nokkur blöð vantar í töluröðina.
317-76 Guðný Þorsteinsdóttir (frá Lindarbakka Borgarfirði eystra): Afrit af formála Sigurðar Óskars Pálssonar sem birtist í bæklingi sem Félag Borgfirðinga eystra í Reykjavík gaf út 1979.
317-77  Þrjú bréf Sigurðar Óskars Pálssonar til Braga Haraldssonar varðandi Guðnýju og ljóð hennar.
317-78 Bréf Braga Haraldssonar frá 1979 til Sigurðar Óskars Pálssonar varðandi upplýsingar um Guðnýju Þorsteinsdóttur móður hans.

Það verkefni bíður væntanlega betri tíma að fara nánar í gegnum ljóðasafn og annað efni sem Guðný Þorsteinsdóttir lét eftir sig og gera nákvæmari skrá yfir verk hennar. Einnig er spurning hvort ekki er ástæða til að kynna verk hennar eða úrval úr þeim betur fyrir almenningi.

Guðgeir Ingvarsson

  • Ritað .