Vorfundur skjalavarða á Egilsstöðum
Dagana 29. og 30. apríl sl. var haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum árlegur fundur skjalavarða, en þá fundi sækir starfsfólk Þjóðskjalasafns Íslands og héraðsskjalasafna landsins. Í janúar sl. var ákveðið að næsti fundur skyldi haldinn á Egilsstöðum. Skipaði Þjóðskjalavörður þá undirbúningsnefnd fyrir fundinn sem skyldi sjá um undirbúning og framkvæmd hans. Í nefndinni áttu sæti Unnar Ingvarsson (Héraðsskjalavörður Skagfirðinga), Njörður Sigurðsson (starfsmaður Þjóðskjalasafns Íslands) og Hrafnkell Lárusson (forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga).
Fundurinn var vel sóttur en alls sáu hann 25 fulltrúar. Sjö fulltrúar komu frá Þjóðskjalasafni og alls 17 fulltrúar komu frá 13 héraðsskjalasöfnum. Til viðbótar var svo einn gestur á fundinum, en það var Örn Hrafnkelsson forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns.
Fundurinn hófst að morgni 29. apríl með því að Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Í ávarpi sínu minntist Ólafur fyrrum forstöðumanns Héraðsskjalasafns Austfirðinga, Hrafnkels A. Jónssonar, og risu fundarmenn úr sætum í virðingarskyni. Eftir setningu fundarins flutti Hrafnkell Lárusson stutt ávarp og að því loknu var gengið til dagskrár.
Þrjú meginumræðuefni voru á dagskrá fundarins. Fyrst þeirra ber að telja eftirlitshlutverk héraðsskjalasafna með skjalavörslu sveitarfélaga og stofnana, en héraðsskjalasöfn landsins er af ýmsum ástæðum, m.a. vegna misjafnrar stærðar, misvel búin undir það hlutverk að veita viðunandi þjónustu á þessu sviði. Annað stórt umræðuefni fundarins var endurskoðun handbókar um skjalavörslu sveitarfélaga. Ný handbók sem leysa mun af eldri handbók um sama efni (sem er orðin 13 ára gömul) er væntanleg fyrir árslok og standa vonir til að hún auðveldi til muna vinnu starfsfólks sveitarfélaga sem og annarra sem við skjalavörslu fást. Þriðja meginumræðuefni fundarins var svo skýrsla um starfsemi héraðsskjalasafna landsins sem Þjóðskjalasafn lét gera á síðasta ári. Var þar um þarft verk að ræða sem varpar ljósi á starfsemi safnanna, en vitnisburður skýrslunnar hefur einnig vakið ýmsar spurningar um hvernig best sé að standa að málum.
Auk áðurtaldra aðalumræðuefna fundarins voru smærri umræðuefni og kynningar á dagskrá fyrri fundardagsins. Síðdegis þann dag fóru fundarmenn svo í gönguferð um miðbæ Egilsstaða og nutu þar leiðsagnar Arndísar Þorvaldsdóttur. Að því loknu var starfsemi Safnahússins í Laufskógum kynnt fyrir fundarmönnum. Síðan tók við móttaka í Safnahúsinu í boði Fljótsdalshéraðs en þar ávarpaði Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs fundarmenn og aðra gesti. Fyrri fundardegi lauk svo með kvöldverði á Hótel Héraði í boði Þjóðskjalasafns.
Almenn ánægja var með fundarstaðinn og framkvæmd fundarins og fengu aðstandendur hans þakkir fyrir sem og fundarstjórar sem héldu röggsamlega um stjórnina. Raunar tókst starf hinna síðarnefndu svo vel að nær allar tímasetningar stóðust og fundinum lauk litlu fyrr en ráð var fyrir gert. Þetta var í fyrsta sinn sem fundur sem þessi er haldinn á Austurlandi og var það sérstök ánægja fyrir undirritaðan að fá að vera í hlutverki gestgjafa.
Hrafnkell Lárusson
- Ritað .