Skip to main content

admin

Skýrsla stjórnar 1996-1997. 19. maí 1998

Stjórn sú sem kosin var á síðasta aðalfundi kom saman 23. október. Þar skipti hún með sér verkum þannig að undirritaður var kosinn formaður, Smári Geirsson varaformaður og ritari Sigurjón Bjarnason. Meðstjórnendur eru Arnbjörg Sveinsdóttir og Ómar Bogason.

Á fundinum gerði forstöðumaður safnsins grein fyrir fjárhag þess en aðalmál fundarins var að ræða um tölvuvæðingu, samstarf í þeim efnum og framkvæmd. Var einhugur í stjórninni í þessum málum. Þá var samþykkt að kaupa ljósritunarvél í samfloti með hinum söfnunum í húsinu. Samþykkt gjaldskrá fyrir ljósritun.

Á sama fundi lagði forstöðumaður safnsins fram tillögu um fyrirkomulag á greiðslum eftirlauna til Sigurðar Pálssonar. Stjórnin fól formanni og forstöðumanni að ganga frá málinu og var það gert 4. mars (12.68% af grunnlaunum af launaflokki 151 8 þrepi (tafla 507).

Þá skoðuðu fundarmenn bókasafn Ólafs Jónssonar sem stóð í hillum í safninu. Stjórn kom í annað sinn saman 9. maí. Gísli Bjarnason, endurskoðandi, kynnti drög að ársreikningi 1996 og forstöðumaður gerði grein fyrir fjárhreyfingum fyrstu þrjá mánuði ársins. Kynnt var og samþykkt samkomulag um lífeyrisgreiðslur til Sigurðar Pálssonar. Þá var farið yfir erindi frá Skólaskrifstofu Austurlands sem gekk út á samskráningu safna og tengingu þeirra við Gegni, Borgarbókasafns Reykjavíkur. Rætt um framkvæmd og stofnkostnað.

Á þessum fundi kom fram tillaga frá forstöðumanni safnsins um greiðslur til stjórnarmanna fyrir fundarsetu og fékk hún dræmar undirtektir. Þá fór forstöðumaður safnsins fram á að launakjör sín yrðu endurskoðuð. Voru lagðar ákveðnar línur í því sambandi á fundinum og formanni falið að ganga frá nýjum samningi fyrir 1. júní. Í maí var síðan undirritaður nýr samningur sem fól í sér þá breytingu að í stað þess að miða laun forstöðumanns safnsins við kauptryggingu 2. stýrimanns með starfsaldursálagi tekur forstöðumaður nú laun skv. 151 flokki, 7 þrepi (tafla 507).

Gerðar voru talsverðar tilraunir til að koma á stjórnarfundi í september en hafðist ekki sökum anna hjá stjórnarmönnum.

Egilsstöðum 29. sept. 1997

sign.
Finnur N. Karlsson

  • Ritað .