Skip to main content

admin

Sigurður Óskar Pálsson - minning

Þann 26. apríl sl. andaðist á Akureyri Sigurður Óskar Pálsson, 81 árs að aldri. Sigurður var héraðsskjalavörður við Héraðsskjalasafn Austfirðinga á árabilinu 1982-1996 en hafði áður starfað sem kennari og skólastjóri við barna- og grunnskólana á Borgarfirði eystra og á Eiðum.

Sigurður var vinsæll í starfi sínu sem héraðsskjalavörður enda fjölfróður og óþreytandi við aðstoða þá sem til hans leituðu. Hann fékkst töluvert við ritstörf, skrifaði pistla í blöð og tímarit og samdi efni fyrir útvarp. Þá hafði hann skopskynið í góðu lagi og var því oft til hans leitað þegar semja þurfti gamanmál. Einnig samdi hann og þýddi fjölmarga söngtexta.

Árið 2001 var úrval ljóða Sigurðar Óskars gefið út af Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi og hlaut bókin nafnið, Austan um land. Eftirlifandi kona Sigurðar er Jónbjörg Eyjólfsdóttir er bæði hagmælt og söngvin og leitaði Sigurður oft aðstoðar hennar þegar fella þurfti ljóð að lagi eða semja gamanmál. Árið 2000 fluttu þau hjónin til Akureyrar eftir að hafa um árabil lagt sitt að mörkum við eflingu menningarlífs á Héraði og í sinni gömlu heimabyggð á Borgarfirði eystra.

Þrátt fyrir að Sigurður væri fluttur í annan landsfjórðung bar hann áfram hag Héraðsskjalasafns Austfirðinga fyrir brjósti. Hann sat langdvölum á Amtsbókasafninu á Akureyri þar sem hann fletti gömlum blöðum og tímaritum og bjó til vandaðar spjaldskrár yfir allt austfirskt efni sem í þeim er að finna. Skrárnar færði hann Héraðsskjalasafninu að gjöf og hafa þær hafa komið þar að góðum notum.

Við þökkum Sigurði störf hans fyrir til Héraðsskjalasafns Austfirðinga og hlýhug til safnsins og vottum aðstandendum hans samúð okkar.

f.h. starfsfólks Héraðsskjalasafns Austfirðinga.
Arndís Þorvaldsdóttir og Hrafnkell Lárusson

  • Ritað .