Skip to main content

admin

Hve langur tími þarf að líða?

Haustið 1995 flutti Bókasafn Héraðsbúa í núverandi húsnæði á þriðju hæð Safnahússins við Laufskóga 1 á Egilsstöðum. Árið 1996 fluttu svo Minjasafn Austurlands og Héraðsskjalasafn Austfirðinga líka inn í Safnahúsið. Húsið eru þó enn aðeins hálfklárað. Samkvæmt upphaflegum teikningum á það að vera þrjár burstir með tveimur tengibyggingum, en það er enn sem komið er aðeins ein og hálf burst með tengibyggingu.

Á þeim árum sem liðin eru síðan flutt var inn hafa söfnin þrjú starfað samhliða í Safnahúsið og starfsfólk þeirra lagt sig fram um að þjónusta íbúa svæðisins með sem bestum hætti, bæði í daglegu starfi og einnig með margvíslegum sýningum og atburðum sem söfnin hafa staðið að hvert og eitt eða öll saman. Í okkar huga er mikilvægi starfseminnar í Safnahúsinu ótvíræð, einkum fyrir íbúa Fljótsdalshéraðs, gesti þeirra og ferðamenn.

Á svig við lög
Bókasafn Héraðsbúa er í hópi þeirra menningarstofnana Fljótsdalshéraðs sem flestir heimsækja. Þangað hafa undanfarin ár komið að jafnaði 8-10 þúsund gestir á ári. Mikill meirihluti gesta er heimafólk og er barnafólk og eldri borgarar áberandi í hópi safngesta. Aðstæður í húsinu gera það hins vegar að verkum að fólk með hreyfihamlanir, vegna fötlunar, slysa, öldrunar eða annarra orsaka, á erfitt með eða getur alls ekki sótt Bókasafn Héraðsbúa heim. Safnið er staðsett á þriðju hæð Safnahússins og þangað upp liggur aðeins stigi en engin lyfta. Stiginn er auk þess einn sá brattasti sem til staðar er í nýlegri opinberri byggingu.   

Þessi hömlun á aðgengi er ekki aðeins bagaleg heldur brýtur hún gegn lögum um almenningsbókasöfn (nr. 36/1997 ). Í 1. grein laganna segir:
„Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna. Er öllum sveitarfélögum skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög.“
Þrátt fyrir þessa stöðu hefur ekki tekist að fá eigendur Safnahússins (en í þeirra hópi er sveitarfélagið Fljótsdalshérað langstærsti aðilinn) til að leggja fjármuni í frekari uppbyggingu hússins. Af hálfu forstöðumanna og stjórna safnanna – bæði núverandi og fyrrverandi – hefur ítrekað verið þrýst á Fljótsdalshérað um að hafa forgöngu um frekari framkvæmdir við Safnahúsið. Engar hafa orðið og virðist litlu breyta þar um þó aðgengismálin sem og viðvarandi leki, í þeim hluta Safnahússins sem er hálfbyggður, hafi ítrekaði orðið umfjöllunarefni fjölmiðla. Síðast nú fyrir skömmu. Ytra byrði þess hluta Safnahússins sem er hálfbyggt liggur undir skemmdum enda ekki þannig frágengið að það væri hugsað til að endast í áratugi.

Vilja- og áhugaleysi fremur en peningaleysi?
Sem betur fer hefur ekki orðið alvarlegt slys vegna þeirrar stöðu sem aðgengismál Bókasafns Héraðsbúa eru í. En er vert að bíða þess að það verði? Eða þess að einhver þeirra íbúa Fljótsdalshéraðs sem ekki getur notið þjónustu bóksafnsins kæri sveitarfélagið fyrir hamlanir á aðgengi? Starfsfólk Safnahússins gerir sér grein fyrir slysahættunni og hefur varað við henni. Von okkar um frumkvæði af hálfu Fljótsdalshéraðs við að leysa þessi mál er nú hins vegar orðin það lítil að nú fyrir skömmu rituðu forstöðumenn safnanna í húsinu bréf til nokkurra félaga sem sinna góðgerðarmálum á Héraði þar sem við óskuðum liðsinnis þeirra við að afla fjár til að bæta megi úr aðgenginu. Ég vænti þess að forsvarsmenn Fljótsdalshéraðs beri fyrir sig sjóðþurrð til að skýra aðgerðaleysið en sú afsökun ristir ekki djúpt sé litið til þeirra fjármuna sem farið hafa í ýmsar framkvæmdir undanfarin ár, m.a. í breytingar á nýbyggingum.

Þegar núverandi meirihluti Á-lista og B-lista á Fljótsdalshéraði tók við eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar varð lóð Safnahússins fyrir valinu sem vettvangur undirritunar málefnasamnings nýs meirihluta. Þetta vakti ákveðnar vonir um að einhver hreyfing kæmist á framkvæmdir við Safnahúsið. Síðan eru liðin rúm tvö ár og hafa þeir sem vöppuðu hér um lóðina daginn sem undirritunin fór fram flestir verið lítt sýnilegir hér síðan.
Fyrir undirritunina stakk ég upp á því við forsvarsmenn framboðanna að þeir veldu athöfninni stað ofan á hálfkláraða hluta Safnahússins eða með hann sem bakgrunn fyrir myndatökur. Þeirri hugmynd var fálega tekið. Sú uppstilling mun því líklega standa næsta meirihluta til boða til að gera að sinni sviðsmynd.

Hrafnkell Lárusson
forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga

  • Ritað .