Skip to main content

admin

Við starfslok

Árið 2012 var síðasta heila starfsár mitt sem forstöðumanns Héraðsskjalasafns Austfirðinga, en um nýliðin áramót voru liðin fimm ár frá því að ég tók við starfinu. Þessi fimm ár hafa verið viðburðarík. Margt ánægjulegt hefur gerst en einnig höfum við sem starfað höfum fyrir safnið þurft að takast á við ýmsa erfiðleika og áföll. Starfsemin hefur þrátt fyrir allt verið lífleg, eins og ársskýrslur safnsins frá undanförnum árum bera með sér. 

Ég kveð samstarfsfólk mitt í Safnahúsinu með söknuði enda hef ég átt við þau mjög gott samstarf á liðnum árum. Þar er á engan hallað þó ég þakki Arndísi Þorvaldsdóttur og Guðgeiri heitnum Ingvarssyni sérstaklega fyrir samstarfið. Þekking þeirra á starfsemi Héraðsskjalasafnsins og safnkosti þess er ómetanleg. Bæði fyrir Héraðsskjalasafnið sjálft en ekki síður fyrir okkur sem starfað höfum með þeim. Öðrum starfsmönnum safnsins, bæði núverandi og fyrrverandi, þakka ég gott samstarf og ánægjuleg kynni. En þess má til gamans geta að á síðastliðnum fimm árum hafa alls 14 manns starfað hjá safninu um lengri eða skemmri tíma.

Á haustdögum 2012 ákvað ég að segja starfi forstöðumanns safnsins lausu frá og með áramótum. Þá ákvörðun mína kynnti ég stjórn safnsins og samstarfsfólki í október, en ég vildi gefa öllum hlutaðeigandi rúman tíma til undirbúnings á ráðningu nýs forstöðumanns. Á aðalfundi Héraðsskjalasafnsins þann 22. nóvember tilkynnti ég uppsögn mína formlega og í bókun sem ég lagði þar fram gerði ég grein fyrir ákvörðun minni. Bókuninni lýkur á þessum orðum sem ég geri að lokaorðum þessa pistils:
Ég er stoltur af starfi mínu fyrir Héraðsskjalasafn Austfirðinga og þeim breytingum sem ég hef átt þátt í að innleiða í starfi þess og starfsumhverfi á síðustu fimm árum. Ég hef ávallt gert mitt besta við að verja hagsmuni stofnunarinnar og efla starf hennar og ég hef lagt mig fram við að halda úti metnaðarfullri starfsemi á tímum þrenginga.
Þegar upp er staðið tel ég að þrátt fyrir erfiðar aðstæður skili ég af mér góðu búi til þess sem taka mun við starfi forstöðumanns þegar ég læt af því. 
 
Ég óska Héraðsskjalasafni Austfirðinga, nýjum forstöðumanni þess og öðru starfsfólki alls hins besta.

Hrafnkell Lárusson
forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga (2008-2013)

  • Ritað .