Skip to main content

admin

Meira af sameign og samskiptum

Í Austurglugganum fyrir viku síðan brást Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, við grein minni Á sameign að gagnast fáum? sem birtist í blaðinu 3. febrúar sl. Eins og við mátti búast er Stefán Bogi ekki allskostar sáttur við skrif mín og er honum það vitanlega heimilt. Hins vegar koma fram í grein hans nokkur atriði sem ég finn mig knúinn að bregðast við.

Framsetning tölulegra upplýsinga

Gagnrýni mín kemur Stefáni Boga „spánskt fyrir sjónir“ vegna þess að Fljótsdalshérað „greiðir einmitt mun meira til safnsins en önnur sveitarfélög.“ Það vekur athygli mína að Stefán Bogi sneiðir hjá því að taka fram af hverju Fljótsdalshérað greiðir meira. Það hefur jú með það að gera að það sveitarfélag nýtur þess að hafa starfsemina hjá sér og fær langt umfram önnur sveitarfélag í byggðasamlaginu af fjármunum til baka frá rekstrinum safnsins, bæði í formi útsvars og aukinnar veltu í samfélaginu. Framlög Fljótsdalshéraðs til Héraðsskjalasafnsins á árunum 2008-2012 voru samtals um 39 milljónir. Á sama tíma náði safnið til sín utanaðkomandi tekjum upp á 35 milljónir auk starfa, sem komu inn í samfélagið á Fljótsdalshéraði (sbr. fyrri grein mína).
Vandinn við að nota stöplarit við framsetningu upplýsinga, eins og Stefán Bogi kýs að gera í grein sinni, er að stundum fela þau ónákvæmi. Einkum er það svo ef forsendur að baki upplýsingunum í stöplaritinu eru ekki sambærilegar. Svo er einmitt í þessu tilviki.
Fyrir árin 2011 og 2012 setur Stefán Bogi inn í stöplana sem tákna framlög Fljótsdalshéraðs fleira en framlög til rekstrar safnsins. Viðbótin sem þarna kemur til, 4 milljónir króna fyrir árið 2011 og um 4,5 milljónir fyrir árið 2012, er tilkomin vegna tveggja sérverkefna. Til að gæta samræmis í framsetningu hefði Stefán Bogi annað hvort átt að sleppa aukaframlögum Fljótsdalshéraðs eða taka tilliti til greiðslna annarra aðildarsveitarfélaga til Héraðsskjalasafnsins vegna sérverkefna fyrir þau. Einkum vegna vinnu safnsins við móttöku, skráningu og frágang skjala frá þeim.

Sérverkefnin
Sérverkefnin sem Stefán Bogi tekur með í útreikning sinn á framlögum Fljótsdalshéraðs til Héraðsskjalasafnsins eru tvö. Annars vegar er ljósmyndaskráningarverkefni sem Fljótsdalshérað samþykkti að leggja til 1.350 þúsund króna framlag árið 2011 á móti 4,5 milljón króna framlagi ríkisins. Framlag sveitarfélagsins er svipað fyrir árið í ár en ríkisframlagið verður þá 5 milljónir. Það er þakkarvert að Fljótsdalshérað skuli hafa kosið að koma að því verkefni með okkur. En það verður þó að fylgja með að þetta eru ódýr störf fyrir sveitarfélagið sem fær stóran hluta síns framlags til baka í formi útsvars starfsmanna. Það hefði verið sérkennilegt ef Fljótsdalshérað hefði neitað þátttöku í þessu verkefni, sem kemur með fjármuni og störf inn í sveitarfélagið.
Hitt dæmið sem Stefán Bogi nefnir þykir mér kostulegt að hann setji fram sem sérstakt aukafjárframlag til Héraðsskjalasafnsins. Þar er um að ræða framlag (2,6 milljónir árið 2011 og væntanlega um 2,8 milljónir árið 2012) vegna vinnu starfsmanns við frágang og skráningu skjala sveitarfélagsins. Um er að ræða verkefni sem löngu var tímabært að ráðast í, en Fljótsdalshérað ber eins og önnur sveitarfélög afhendingarskyldu á sínum skjölum til héraðsskjalasafns.
Forsaga þessa máls er sú að í ágúst 2010 tók nýr forstöðumaður við Bókasafni Héraðsbúa og átti viðkomandi að sinna því í hálfu starfi gegn sama starfshlutfalli við bókasafn Grunnskóla Egilsstaða. Eftir tæpa tvo mánuði í starfi kom í ljós að sveitarfélagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar við umræddan starfsmann vegna sparnaðar hjá grunnskólanum. Þá var starfsmaðurinn hins vegar fluttur búferlum austur enda taldi hann sig vera kominn í fullt starf. Í vandræðum sínum sneru bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði sér til mín og viðruðu þá hugmynd að búa til tímabundið starf við skráningu skjala sveitarfélagsins fyrir viðkomandi starfsmann (sem hafði reynslu af slíkri vinnu). Síðar bættist við vinna starfsmannsins að viðhaldi á heimasíðu sveitarfélagsins. Varð þetta úr og fékk starfsmaðurinn aðstöðu í Héraðsskjalasafninu. Ástæður þess að ég féllst á þetta á sínum tíma voru fyrst og fremst þær að mér þótti illa farið með hæfan og góðan starfsmann ef hann hrökklaðist frá vegna þeirrar stöðu sem upp var komin.
Það var ljóst frá upphafi að Héraðsskjalasafnið hefði enga fjárhagslegan ávinning af þessu verkefni. Greiðslur vegna þess fara allar í að greiða viðkomandi starfsmanni laun, ekkert af þeim fjármunum verður eftir í rekstri safnsins. Því er fráleitt að reikna það sem aukaframlag til Héraðsskjalasafnsins að safnið hýsi fyrir Fljótsdalshérað starfsmann sem vinnur sérverkefni fyrir sveitarfélagið. Í þessu máli var það Héraðsskjalasafnið sem rétti Fljótsdalshéraði hjálparhönd en ekki öfugt og hefur safnið frekar haft af þessu verkefni kostnað heldur en hitt. Þar vísa ég til að Fljótsdalshéraði hefur (að kostnaðarlausu) verið lögð til aðstaða fyrir starfsmanninn auk þess sem sá sem þetta ritar hefur varið ófáuum vinnustundum í að sækja til sveitarfélagsins skjöl til skráningar. Fyrir þá vinnu hefur ekki verið rukkað. Til viðbótar má geta þess að eftirgangsmuni þurfti ítrekað að viðhafa á síðasta ári til að fá umsamdar greiðslur vegna verkefnisins.

Fundahöld
Það er rétt hjá Stefáni Boga að ég hef ítrekað fundað með forsvarsmönnum Fljótsdalshéraðs vegna málefna safnsins á undanförnum árum. Þeir fundir hafa nær undantekningalaust verið af mínu frumkvæði. Stefán Bogi virðist þó ekki setja þá staðreynd í samband við ég sjái mig nú knúinn, vegna erfiðleika í rekstri safnsins, til að tjá mig opinberlega um þessi mál.
Varðandi vettvangsferð Menningar- og íþróttanefndar Fljótsdalshéraðs í Safnahúsið sl. haust er þó rétt að upplýsa hvernig til hennar var stofnað. Það bar þannig til að haft var samband við safnstjóra Minjasafnsins og honum tilkynnt (og falið að bera boð um) að nefndin kæmi í heimsókn daginn eftir. Fyrir umræddan dag hafði ég gert aðrar ráðstafanir og gat því ekki hitt nefndina þá. Ég leitaði hins vegar eftir því að hitta nefndina síðar, án þess að við því væri orðið. Ég leyfi mér að efast um að ákvarðanir menningar- og íþróttanefndar um málefni safnsins séu teknar að eins vel athuguðu máli og Stefán Bogi telur þar sem nefndin hvorki ræddi við forsvarsmann safnsins né kallað eftir upplýsingum.
Vert er að taka fram að þrátt fyrir almennan sparnað hjá Fljótsdalshéraði (sem og hjá mörgum öðrum sveitarfélögum) eru þeir fjármunir sem bent hefur verið á að Héraðsskjalasafnið vanti í rekstur sinn, til að forða því að starfsemin skaðist, algerir smámunir í rekstri sveitarfélagsins.

Að lokum
Á árunum fyrir hrun tókst safnafólk á við áhrif nýfrjálshyggjunnar á safnastarf. Þau birtust m.a. í því að opinberir aðilar, sem söfnin sækja meginhluta síns rekstrarfjár til, ýttu undir að söfnin sæktu sér fé til einkaaðila til ákveðinna verkefna. Þeir höfðu einkum áhuga á „sýnilegum“ verkefnum, sem aðeins eru einn hluti safnastarfs. Oftar en ekki notuðu opinberu aðilarnir tækifærið, þegar einkafjármagn fékkst, til að skera niður sín framlög til safna. Þetta kom niður á grunnstarfsemi þeirra, s.s. skráningu muna, og gerði söfnin berskjaldaðri en ella til að bregðast við því þegar efnahagskerfið hrundi og einkafjármagn lá ekki lengur á lausu. Þessi angi nýfrjálshyggju lifir ágætu lífi enn, en afleiðing þessa er sú að innviðir safnanna fúna og máttur þeirra þverr.

Hrafnkell Lárusson
forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga

  • Ritað .