Skip to main content

admin

Á sameign að gagnast fáum?

Á Austurlandi starfa ýmsar stofnanir sem misjafnlega mikið fer fyrir í almennri umræðu. Ein þessara sameiginlegu stofnana er Héraðsskjalasafn Austfirðinga sem starfrækt hefur verið síðan 1976. Héraðsskjalasafnið hefur starfssvið sem nær bæði til stjórnsýslu og menningar. Safnið sækja að jafnaði um 1600-1800 gestir á ári. Það tekur við og skráir skjöl frá stofnunum og einstaklingum, hjá því er viðamikið ljósmyndasafn og veglegt rannsóknarbókasafn, starfsfólk safnsins liðsinnir námsfólki og öðrum sem leita til safnsins í heimildaleit og það stendur ár hvert fyrir fjölda sýninga og annarra menningarviðburða.

Hverjir eiga?
Héraðsskjalasafn Austfirðinga er byggðasamlag í sameiginlegri eigu allra sveitarfélaga í Múlasýslum, en starfsstöð þess er á Egilsstöðum. Aðildarsveitarfélögin greiða árleg framlög til Héraðsskjalasafnsins samkvæmt reiknireglu sem tekur mið af skatttekjum ársins á undan og eru 70% framlaga reiknuð með þeim hætti. Það sem uppá vantar (30% framlaga) greiða sveitarfélögin sem tilheyra svokölluðu Héraðssvæði og greiðir Fljótsdalshérað bróðurpart þess framlags enda eðlilegt að sveitarfélagið sem nýtur góðs af því að hafa starfsemina hjá sér greiði meira.
Í byrjun árs 2008 tók sá sem þetta ritar við starfi forstöðumanns Héraðsskjalasafn Austfirðinga og hef ég gegnt því starfi síðan. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa miklar sviptingar orðið í efnahagslífi landsins, sem hófust með bankahruninu haustið 2008. Það sama haust tókst Héraðsskjalasafninu (þremur árum fyrr en ætlað var) að greiða niður lán við Arion banka og spöruðust safninu (og sveitarfélögunum) þar með verulegir fjármunir.

Utankomandi verkefni = aukin umsvif
Það efldi starfsemi Héraðsskjalasafnsins að í byrjun árs 2008 hófst hjá því vinna við tölvuskráningu manntala. Það verkefni var unnið undir umsjón Þjóðskjalasafns Íslands, en því lauk í janúar 2011. Þessu verkefni fylgdu aukin umsvif hjá safninu. Að jafnaði störfuðu 3-4 starfsmenn að verkefninu í hlutastörfum, en 2 ársstöðugildi komu í hlut Héraðsskjalasafnsins. Fjárhagur safnsins styrktist með þessu verkefni, einkum vegna greiðslna sem fengust fyrir umsjón forstöðumanns. Þar nýttist reynsla mín af sambærilegum verkefni á vegum Þjóðskjalasafns. Hún var raunar ein af helstu ástæðum þess að þetta verkefni kom til Héraðsskjalasafnsins. Vegna manntalsskráningarinnar komu á þessu tímabili (mars 2008 til janúar 2011) alls rúmar 25 milljónir króna inn í rekstur Héraðsskjalasafnsins. Langstærstur hluti þess fjár fór í að greiða starfsfólki laun og standa straum af kostnaði sem til féll, en nokkur upphæð sat þó eftir í rekstrinum. Það var happ fyrir safnið að fá manntalsskráningarverkefnið en slík verkefni eru ekki á hverju strái.
Í febrúar 2011 hófst svo samstarfsverkefni Héraðsskjalasafns Austfirðinga með héraðsskjalasöfnunum á Sauðárkróki og Selfossi. Það verkefni snýst um skráningu og skönnun ljósmynda og veitti ríkið fjármunum til þess á fjárlögum 2011 og svo aftur á fjárlögum ársins 2012. Fyrra árið komu 4,5 milljónir króna í hlut Héraðsskjalasafns Austfirðinga og í ár er hlutur þess 5 milljónir. Bæði árin hefur Fljótsdalshérað komið að verkefninu með viðbótarframlagi sem er um 30% af framlagi ríkisins. Með þessu hefur tekist að standa straum tveimur stöðugildum og kaupum á nauðsynlegum búnaði.
Af þessu leiðir að frá 2008 hafa orðið til hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga alls um 10 heilsárstörf sem að mestu eða öllu leyti eru fjármögnuð með utanaðkomandi fjárframlögum. Samtals hafa á tímabilinu þannig komið inn á svæðið tæpar 35 milljónir króna. Þessara auknu umsvifa hefur Fljótsdalshérað notið umfram önnur aðildarsveitarfélög byggasamlagsins um Héraðsskjalasafn Austfirðinga, bæði með veltuaukningu í samfélaginu og með auknum útsvarstekjum.

Rekstrarstaða safnsins
Það er ekki sjálfgefið að Héraðsskjalasafnið hafi tækifæri og getu til að takast á við aukin verkefni sem skili safninu störfum og tekjum. Núverandi húsnæði safnsins setur því takmörk og hefur starfsfólk þess þurft að sýna af sér nægjusemi varðandi aðstöðu. Það sem hamlar þó mest því að safnið geti tekið að sér aukin verkefni, og aukið þannig umsvif sín samfélaginu til góða, er hversu mjög framlög aðildarsveitarfélaganna hafa dregist saman sé miðað við verðlags- og launaþróun undanfarinna ára. Í ár fær safnið 16,1 milljón í rekstrarframlög frá aðildarsveitarfélögunum. Það er sama upphæð og safnið fékk árið 2011 en einni milljón lægra en það fékk 2008 (17,1 milljón). Með tilliti til verðlags- og launaþróunar síðan 2008 má áætla að tekjusamdráttur safnsins á þessu tímabili sé í raun um 20%. Í rekstri sem þessum, þar sem fastur kostnaður og launakostnaður eru svo yfirgnæfandi stærstu útgjaldaliðirnir að svigrúm til sparnaðar og hagræðingar er nær ekkert (enda hefur það verið gjörnýtt undanfarin ár), segir sig sjálft að eitthvað verður undan að láta.
Nú er svo komið að óhjákvæmilegt var að ganga á grunnstarfsemi safnsins. Safnið hefur haft þrjá fasta starfsmenn sl. ár í 2,75 stöðugildi (þar til viðbótar er verkefnaráðið fólk), en nú er sami fjöldi fastra starfsmanna aðeins í 1,75 stöðugildi, þar af er forstöðumaður safnsins launalausu leyfi þetta árið, sem nemur 50% af starfshlutfalli. Slíkur samdráttur er afar slæmur fyrir starfsemina og hefur leitt af sér þjónustuskerðingu, þá sýnilegustu í formi verulega minnkaðs opnunartíma.

Hvað veldur núverandi stöðu?
Undanfarin ár hef ég ítrekað gert forsvarsmönnum aðildarsveitarfélaga safnsins grein fyrir því að brýnt sé að tryggja grunnstarfsemi þess betri rekstrargrundvöll. Sé ekki hugað að grunnstarfsemi safnsins er tómt mál að tala um aukin utanaðkomandi verkefni til safnsins í framtíðinni. Þetta viðhorf hefur víðast mætt skilningi án þess að framlög til safnsins hafi aukist. Fyrir því er ákveðin ástæða. Eitt sveitarfélag hefur jafnan dregið lappirnar þegar kemur að auknum framlögum til Héraðsskjalasafnsins. Það sveitarfélag er Fljótsdalshérað. Það hélt sig við sína afstöðu síðastliðið haust þrátt fyrir vilja meðal annarra aðildarsveitarfélaga til að auka framlög til safnsins. Breytti engu um afstöðu Fljótsdalshéraðs að sýnt hefði verið fram á að rekstur og starfsemi Héraðsskjalasafnsins stefndi í verulega erfiðleika ef ekki yrði brugðist við.
Það skýtur vissulega skökku við að það sveitarfélag sem setið hefur eitt að ávöxtum þeirra verkefna sem Héraðsskjalasafnið hefur fengið til sín undanfarin ár skuli standa í vegi fyrir því að safnið fái aukin fjárframlög sem því eru nauðsynleg. Því miður er það lýsandi fyrir stöðuna að menningar- og íþróttanefnd Fljótsdalshéraðs ákvað við fjárhagsáætlunargerð í fyrra að spara sér óþægindin af því að hitta mig þrátt fyrir að eftir því væri leitað af minni hálfu.
Það er fyrst og fremst á ábyrgð Fljótsdalshéraðs að rekstrarstaða Héraðsskjalasafnsins er orðin jafn erfið og raun ber vitni. Öfugt við það sem ætla mætti virðist að meðal þeirra sem fara með fjárveitingar til safnsins innan stjórnsýslu Fljótsdalshéraðs haldist í hendur skilningsleysi á þörfum safnsins og fáfræði um starfsemina. Þegar við bætist það viðhorf að sjálfsagt sé að Fljótsdalshérað njóti eitt ávaxtanna af starfi Héraðsskjalasafnsins er ekki á góðu von.

Hrafnkell Lárusson
forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga

  • Ritað .