Skip to main content

admin

Aðsókn að safninu á árinu 2009

Frá ársbyrjun 2008 hefur verið framkvæmd skipuleg skráning gesta sem koma í Héraðsskjalasafn Austfirðinga. Hefur skráningin verið gerð þannig að starfsfólk safnsins skráir gestafjölda frá degi til dags. Nú hefur þessi háttur verið hafður á í tvö ár og því vert að gera örlítinn samanburð á árunum um leið og greint verður frá gestafjölda á árinu 2009.

Rétt er að taka fram að þeir sem koma í safnið í persónulegum erindagjörðum við einstaka starfsmenn eru ekki taldir með í gestatalningunni heldur aðeins þeir sem eiga erindi við héraðsskjalasafnið, bókasafn Halldórs og Önnu Guðnýjar og/eða ljósmyndasafnið.

Á árinu 2009 dreifðust gestir jafnar yfir mánuðina en árið 2008. Þó var áberandi toppur í gestafjölda í febrúar 2009 en þá komu 272 gestir í safnið. Skýrist það af því að í þeim mánuði voru mikið fleiri skólaheimsóknir í safnið en aðra mánuði. Annars voru gestir að jafnaði frá 100 til rúmlega 140 talsins í hverjum mánuði. Þó voru gestir færri en 100 í nóvember (97) og í desember (92) en þessir mánuðir eru þeir einu frá því að byrjað var að telja gesti með þessum hætti þar sem fjöldi þeirra í einum mánuði fer niður fyrir 100. Athyglisvert er að á árinu 2009 var júlímánuður næst gestkvæmastur á eftir febrúar með 146 gesti. Á því er engin einhlýt skýring en það er þó í samræmi við fjölda gesta í júlí 2008 en þá voru þeir 152 talsins.

Í heildina voru gestir á árinu 2009 nokkru færri en þeir voru árið 2008 eða alls 1564 árið 2009 á móti 1797 árið áður. Þarna munar 233 gestum sem samsvarar 13% fækkun. Þarna spila skólahóparnir aftur stærstan þátt en í október og nóvember 2008 voru óvenju margir og fjölmennir skólahópar sem sóttu safnið heim. Sjá má að fækkunin er enda fyrst og fremst í þessum tveimur mánuðum, þegar einstakir mánuðir þessara tveggja ára eru bornir saman. Alls komu 467 gestir í safnið í október og nóvember 2008 á móti 226 gestum í sömu mánuðum í fyrra. Í samræmi við þetta voru gestir á síðari hluta ársins 2009 mun færri (701) en á sama tíma árið 2008 (963). Heldur fleiri gestir komu hins vegar í safnið á fyrri hluta ársins 2009 (863) en á sama tíma árið áður (834).

Sú meginályktun sem má draga af niðurstöðum þessara tveggja ára er sú að aðsókn almennra safngesta, fræða- og námsfólks að sveiflurnar milli ára skýrist einkum af færri skólahópum á árinu 2009 en árið 2008. Reyndar virðist, þegar rýnt er í tölurnar og þær bornar saman við tilfinningu starfsfólks, mega sjá þess merki að gestum sem koma utan hópa fari jafnt og þétt fjölgandi og nýting á safnkostinum þar með.

Hrafnkell Lárusson

  • Ritað .