Skip to main content

admin

Tilkoma skráningarstarfa í Héraðsskjalasafni Austfirðinga

Í síðasta tölublaði Austurgluggans [21. febrúar 2008] birtist á forsíðu frétt um störf við skráningu manntala sem munu verða unnin hjá Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum. Um er að ræða verkefni sem héraðsskjalasafnið tekur að sér og er hluti stærra skráningarverkefnis á vegum Þjóðskjalasafns Íslands.

Fjármagn til þessa verkefnis fékkst í gegnum mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem eins og kunnugt er eru tilkomnar vegna samdráttar í þorskveiðum. Töluverð umræða orðið hér austanlands vegna verkefnisins sem unnið verður í héraðsskjalasafninu, einkum vegna staðsetningar þess á Egilsstöðum. Er því ástæða til að útskýra nánar, en þegar hefur verið gert, hvernig í þessu liggur.
Sem fyrr segir er það skráningarverkefni sem Héraðsskjalasafn Austfirðinga tekur að sér hluti af stærra verkefni sem Þjóðskjalasafnið stendur að og hefur yfirumsjón með. Nú þegar hafa verkefni, lík því sem unnið veriður á Egilsstöðum, verið sett á laggirnar í Vestmannaeyjum og á Húsavík og fleiri eru í bígerð, m.a. á Sauðárkróki. Allir eru þessir staðir sjávarpláss og allir hýsa þeir einnig héraðsskjalasöfn.

 Þjóðskjalasafnið býður verkefni
Þegar starfsmaður Þjóðskjalasafnsins setti sig í samband við þann sem þetta skrifar og hóf máls á því að flytja tvö ársverk við skráningu hingað austur tók ég því fagnandi. Meðan verkefnið var enn á umræðustigi sá ég ástæðu til að ljá máls á því við Þjóðskjalasafnið hvort ekki væri vel við hæfi að þessi störf yrðu unnin í fjarvinnslu í einhverjum af útgerðarplássum Austurlands. Þeirri hugmynd var hafnað af tveimur ástæðum, sem hér skal gerð grein fyrir.

Í fyrsta lagi leggur Þjóðskjalasafnið ríka áherslu á að mjög sé vandað til meðferðar og geymslu gagnanna sem unnið er með, enda um gömul og viðkvæm gögn að ræða sem aukinheldur eru einstök og verða ekki bætt skemmist þau eða eyðileggist. Varðveisluskylda skjalasafna er mjög rík. Þeim er ekki aðeins ætlað að varðveita safnkost sinn fyrir núlifandi kynslóð heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Af þeim sökum gerir Þjóðskjalasafnið í tilvikum sem þessu strangar kröfur um geymsluhúsnæði og öryggi geymsla.

Hin meginástæða þess að tormerki töldust á því að vinnan færi fram annarsstaðar en í húsnæði héraðsskjalasafnsins er sá þáttur sem forstöðumanni þess er gert að sinna í verkefninu. Þar er um að ræða hlutverk umsjónarmanns verkefnisins og ekki síður þarf forstöðumaður að vera til staðar til að aðstoða starfsmenn við skráninguna, einkum þegar vafaatriði koma upp, en skráð er upp úr handskrifuðum gögnum sem eru meira en aldargömul. Forstöðumaður héraðsskjalasafnsins verður því að vera til staðar þar sem vinnan fer fram svo hann geti sinnt sínu hlutverki. Þess ber að geta að sá sem hér ritar hefur reynslu af skráningarverkefnum sem þessu og var það meðal ástæðna þess að Þjóðskjalasafnið bauð Héraðsskjalasafni Austfirðinga þetta verkefni.

 Störf inn á svæðið
Þessum kröfum Þjóðskjalasafnsins átti ég erfitt með að standa gegn enda álít ég þær eðlilegar með hliðsjón af skyldum Þjóðskjalasafnsins og eðli verkefnisins. Þar sem enginn skortur er á aðilum annarsstaðar á landinu sem væru tilbúnir til að taka við verkefnum sem þessu fannst mér ástæðulaust að láta það, að ekki væri unnt að vinna verkefnið í fjarvinnslu annarsstaðar í fjórðungnum, koma í veg fyrir að héraðsskjalasafnið tæki verkefnið að sér. Enda taldi ég fráleitt að slá hendinni á móti því að fá hingað austur tvö ársverk, sem kostuð eru annarsstaðar frá.

Áhugi á verkefninu hér hjá héraðsskjalasafninu hefur verið mikill og voru fyrirspurnir vegna starfanna líklega eitthvað á fjórða tuginn. Umsóknir voru á annan tuginn og fannst mér mjög ánægjulegt hversu áhugasamt fólk var um þessi störf. Starfsfólk til að vinna verkefnið var ráðið í þessarar viku og mun vinna við það hefjast í næstu viku.

Ég vona að með þessum pistli mínum hafi mér tekist að skýra tilkomu þessa verkefnis og ná þannig að eyða mögulegum misskilningi um tildrög þess. Héraðsskjalasafn Austfirðinga er safn allra íbúa Múlasýslna og viljum við sem hér störfum leitast við að þjóna öllum hlutum svæðisins eins vel og okkur er unnt.

  
Hrafnkell Lárusson

forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga

 

[Þessi grein birtist í Austurglugganum 28. febrúar 2008]

 

  • Ritað .